Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hundruðum milljóna komið undan í skattaskjólum

Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com/patrickgage
Hátt í hundrað manns hafa haft stöðu sakbornings í rannsóknum skattrannsóknarstjóra á aflandsgögnum. Fjörutíu og sex stórfelld brot hafa verið send til saksóknara, og skattaundanskotin nema hundruðum milljóna króna.

Skattrannsóknarstjóri keypti í fyrra gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum, fyrir 37 milljónir króna. Miðað við umfang þeirra mála sem embættið hefur rannsakað, eru fjárhæðir sem stungið hefur verið undan skatti gegnum aflandsfélögin margfalt hærri en verðið fyrir gögnin. Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir skattrannsóknarstjóri að fjárhæðir í hverju máli geti numið frá milljónum króna upp í tugi eða hundruð milljóna. 

Um fimm hundruð félög, sem tengjast Íslendingum, voru í gögnunum sem embættið keypti í fyrra. Í gögnum, sem var lekið til fjölmiðla frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca og fjallað var um í vor, voru nöfn um sex hundruð íslenskra félaga, þar á meðal gögn sem tengdust þremur þáverandi ráðherrum.

Það er ekki ólöglegt að geyma eignir í aflandsfélögum en að sögn skattrannsóknarstjóra getur í sumum tilvikum verið ómögulegt að sannreyna upplýsingar um skattaskil aflandsfélaga. Enda hefur komið á daginn að háum fjárhæðum hefur verið skotið undan með þessum hætti.

Tugur húsleita og gögn haldlögð

Alls hafa 108 mál verið tekin til formlegrar rannsóknar vegna gruns um skattalagabrot sem tengjast hinum svonefndu Panamaskjölum. Sum þeirra höfðu áður verið til rannsóknar hjá embættinu en 34 mál voru tekin til rannsóknar eftir að gögnin voru keypt og í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar í tengslum við Panamalekann fyrr á þessu ári. Þrjú þeirra voru felld niður.

Embættið hefur gert um tug húsleita, þar sem gögn hafa verið haldlögð, og tekið skýrslur af á annað hundrað manna. Hátt í hundrað þeirra hafa haft stöðu sökunauts.

Varða allt að 6 ára fangelsi

46 málum hefur verið vísað til saksóknara, þar sem skattrannsóknarstjóri hefur komist að þeirri niðurstöðu að stórfelld brot hafi verið framin. Brotin varða við almenn hegningarlög og geta varðað allt að sex ára fangelsi. Málin eru á borði héraðssaksóknara.

Skattrannsóknarstjóra er óheimilt að gefa upplýsingar um hvaða félög eða persónur er að ræða, og getur ekki svarað hvort tiltekin mál hafi verið tekin til rannsóknar.