Hundruð kóalabjarna drápust í gróðureldum

20.11.2019 - 19:23
Mynd: AP / AP
Hundruð kóalabjarna hafa drepist í gróðureldunum sem geisa í Ástralíu. Hæsta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir í suðurhluta landsins og er óttast að ástandið versni enn á morgun.

Yfir fimm hundruð heimili hafa þegar orðið eldinum að bráð og sex hafa látist vegna þeirra. Í Nullarbor í Suður-Ástralíu mældist hitinn í gær 46,6 gráður. Á morgun er spáð enn meiri hita og þurrum vindi. Rafmagn hefur verið tekið af um tíu þúsund heimilum og fyrirtækjum til að koma í veg fyrir að fleiri eldar kvikni og hæsta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir í suðurhluta landsins. 

Þá eru ótalin áhrifin á dýraríkið. Hundruð kóalabjarna hafa drepist í gróðureldunum, sem er býsna stórt skarð þegar áætlað er að til séu um 80 þúsund kóalabirnir í heiminum öllum. 

Ólíkt öðrum dýrum sem í skógunum búa leggja þeir síður á flótta, heldur hnipra sig saman í trjánum og bíða þess sem verða vill. 

Myndband af Toni Doherty hefur farið víða, konu sem svipti sig klæðum og kom til bjargar kóalabirni sem kominn var í ógöngur. Kóalabjörninn Lewis fær nú aðhlynningu á dýraspítala. Hann er með þónokkur brunasár og á fyrir höndum langt og strangt bataferli. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi