Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hundruð handtekin eftir mótmæli í Egyptalandi

24.09.2019 - 02:56
epa07858285 Egyptian protesters gather in downtown Cairo shouting anti-government slogans during a demonstration in Cairo, Egypt, 21 September 2019.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nær 500 manns hafa verið handtekin í Egyptalandi síðustu daga, eftir mótmæli gegn vanhæfni og meintri spillingu Egyptalandsforseta og stjórnar hans. Þetta er haft eftir baráttufólki fyrir mannréttindum þar í landi og fólki úr hópi mótmælenda. Efnt var til mótmæla í Kaíró, Alexandríu, Súez og fleiri borgum á föstudag. Mótmælin voru ekki fjölmenn og víðast hvar mátti telja mótmælendur í hundruðum fremur en þúsundum.

Á laugardagskvöld var aftur mótmælt í Súez og gerð tilraun til þess á Tahrir-torginu í Kaíró. Bæði kvöldin tók lögregla á mótmælendum af mikilli hörku og beitti hvorutveggja táragasi og skotvopnum. Yfirvöld hafa ekki upplýst hversu mörg úr hópi mótmælenda voru handtekin.

Mótmæli sem þessi hafa verið afar fátíð síðustu ár, enda bannaði ríkisstjórn Abdels Fattah al-Sisi öll mótmæli árið 2013, skömmu eftir að al-Sisi, sem þá var hershöfðingi, leiddi valdarán hersins og steypti Mohamed Morsi, fyrsta lýðræðislega kjörna forseta landsins, af stóli. Áætlað er að stjórn al-Sisi hafi látið handataka og fangelsa minnst 60.000 stuðningsmenn Morsis og flokks hans, Múslímska bræðralagsins, sem nú er bannaður. Hundruð úr þeim hópi hafa verið dæmd til dauða og hundruð til viðbótar hafa horfið sporlaust.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV