Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hundar og vopn í Leifsstöð

22.03.2016 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Sprengjuleitarhundar, vopnaðir lögreglumenn og sérsveitarmenn eru við eftirlit í Leifsstöð eftir hryðjuverkin í Brussel. Ríkislögreglustjóri telur ekki ástæðu til að auka eftirlit með útlendingum eða sérstökum hópum í samfélaginu. Hann telur ekki útilokað að hryðjuverk verði framin á íslensku yfirráðasvæði.

Það var niðurstaða vástigsnefndar sem kom saman strax og fréttir bárust af hryðjuverkunum í Brussel að ekki væri ástæða til að hækka vástig vegna hryðjuverkaógnar hér á landi. 
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir að viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli hafi hins vegar verið aukinn til muna í dag.

„Við munum fjölga sýnilegum lögreglumönnum og þeir munu vera vopnaðir. Sérsveitin mun hafa aðkomu að þessu máli með aðstoð við lögreglumennina á Keflavíkurflugvelli, við munum hafa sprengjuleitarhund þar í sérstöku eftirliti með starfsmanni sem sér um hundinn og fleira í þessa veru.“

Engin ákvörðun hafi verið tekin um hversu lengi þessi viðbúnaður verði í Keflavík, staðan verði metin frá degi til dags. Lögreglan hér á landi sé í góðu og stöðugu sambandi við norræna kollega sína, Europol og fleiri.
Haraldur segir ljóst að hryðjuverkaógnina verði að taka alvarlega hér á landi, „og við verðum að nálgast þetta verkefni og þessa hættu með það í huga að það sé ekki útilokað að slíkir atburðir geti gerst á íslensku yfirráðasvæði, annað hvort hérlendis eða erlendis,“ segir Haraldur.

Hann segir að engar upplýsingar hafi borist um grunsamlegar komur erlendra manna hingað til lands, og að ekkert sérstakt eftirlit sé haft með útlendingum.

„Að sjálfsögðu fylgjumst við vel með og fáum þá viðvaranir erlendis frá, þannig að við erum alltaf að fylgjast með þessu, já,“ segir Haraldur en hann telur ekki ástæðu til að auka eftirlit með ákveðnum hópum í samfélaginu.

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV