Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hunangið ómissandi í jólakveðjulestri

23.12.2019 - 11:40
Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Hunang er ómissandi hjá þulum Ríkisútvarpsins þessa dagana því nú stendur lestur jólakveðjum sem hæst. Jólaandinn ríkir í hljóðveri 5 í Útvarpshúsinu þar sem jólakveðjurnar eru lesnar. Bæði starfandi og fyrrverandi þulir taka þátt í lestri jólakveðja. Þulirnir tóku lagið fyrir fréttamann sem kíkti í heimsókn.

Það er mikil jólastemming hjá ykkur. Er þetta alltaf svona?

„Þetta er alltaf svona. Við erum svo glöð þegar við hittumst. Við hittumst ekki öll oft á ári en þegar við hittumst í þetta eina skipti í desember þá er svo gaman. Við minnumst barnæsku okkar og verðum svo glöð og svo ástfangin hvert af öðru,“ segir Stefanía Valgeirsdóttir. 

Hvað eruð þið mörg sem eruð að lesa jólakveðjurnar?

„Við erum 4-6. Það er einn þulur sem þarf að sinna útsendingunni. Hinir skipta með sér verkum,“ segir Sigvaldi Júlíusson þulur.

Í hljóðverinu eru piparkökur, mandarínur, gotterí, malt og appelsín og svo hunang. Sigvaldi segir að það sé ómissandi til að mýkja röddina. 

Arndís Björk Ásgeirsdóttir sinnir þularvaktinni í dag. „En það er orðið þannig að það eru komnar svo margar jólakveðjur inn í samlesnar auglýsingar. En þetta er náttúrulega bara stórkostlegt. Mér finnst þetta mikill heiður. Ég ólst upp við þetta á Þorláksmessu að sitja heima og amma bakaði hveitikökurnar, hangikjötið mallaði og það var verið að undirbúa veislu kvöldsins. Þá hlustuðum við á þessar jólakveðjur og svo tók móðursystir mín þetta upp seinna. Í stað þess að taka þetta upp ákvað ég að koma hingað og lesa í staðinn.

Og hvenær byrjuðuð þið að lesa?

„Hluti af þessu er tekið upp. En lesturinn í beinni byrjaði klukkan 19 í gærkvöldi til miðnættis. Síðan hófst lestur klukkan sjö í morgun og lestur mun enda á miðnætti,“ segir Sigvaldi.