Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Húmanistar leita eftir samstarfi

Mynd með færslu
 Mynd:
Húmanistaflokkurinn hefur leitað eftir samstarfi við aðra flokka um framboð í Alþingiskosningunum í vor. Engin niðurstaða liggur fyrir en flokksmenn halda ótrauðir áfram.

Húmanistaflokkurinn var stofnaður árið 1984. Hann hefur boðið fram þrisvar til alþingiskosninga og fjórum sinnum tekið þátt í sveitarstjórnarkosningum. Hann hefur aldrei náð inn manni en gefst ekki upp. 

„Við höfum skrifað öllum litlu framboðunum og við höfum fengið eitthvað af svörum en mótað þessa stefnu nú þegar,“ segir Júlíus Valdimarsson, talsmaður Húmanistaflokksins. 

Það er því ekkert fast í hendi hjá Húmanistum en þau segja mikilvægt að litlu framboðin komi sér saman um fá en mikilvæg mál. 
„Eins og skuldamál heimilanna, að þá standi litlu framboðin saman um ákveðnar tillögur, um ákveðnar neyðarráðstafanir,“ segir Júlíus.

„Það þarf að vera nýtt bankakerfi, Landsbankinn verði alls ekki einkavæddur heldur gerður að samfélagsbanka. Þessi banki geti starfað á lágum vöxtum og geti tekið yfir endurskipulagningu húsnæðismálakerfisins. Og þetta þarf að vera þjóðarbanki sem hefur samfélagsleg markmið,“ segir hann.