„Hugsum til þeirra sem sakna og syrgja“

17.11.2019 - 17:12
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / Grímur Jón Sigurðsson
Árlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa er í dag. Af því tilefni var minningarathöfn haldin við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Þetta er í áttunda sinn sem minningardagurinn er haldinn hér á landi en Samgöngustofa og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið standa að baki viðburðinum.

Sambærilegar athafnir voru haldnar víða um land á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og hliðstæð athöfn fór fram víða um heim undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. 

Í ár var kastljósinu sérstaklega beint að erfiðum aðstæðum aðstandenda eftir umferðarslys. Þá voru viðbragðsaðilar sem vinna á vettvangi umferðarslysa heiðraðir.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði minningingarstundina í dag.  „Á þessum viðburði minnumst við þeirra sem látið hafa lífið í umferðarslysum. Við komum saman hér og víðar um land. Við hugsum líka til þerra sem eftir lifa. Þeirra sem sakna og syrgja og þurfa að horfast í augu við sinn mikla missi.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi