Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hugsanlegt að Prep-meðferð ýti undir kæruleysi

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Hvergi í Evrópu greinast hlutfallslega fleiri tilfelli sárasóttar en á Íslandi. Samkynhneigðir karlmenn eru í meirihluta þeirra sem greinast. Sóttvarnalæknir telur homma hugsanlega vera orðna værukærari eftir að  fyrirbyggjandi meðferð við HIV fór að bjóðast hér. 

Evrópumet

Hvergi í Evrópu greinast hlutfallslega fleiri tilfelli af sárasótt en á Íslandi. Samkynhneigðir karlmenn eru meirihluti þeirra sem greinist. Sóttvarnalæknir telur homma hugsanlega vera orðna værukærari eftir að  fyrirbyggjandi meðferð við HIV fór að bjóðast hér. Varaformaður Samtakanna 78 telur aukninguna frekar tengjast nýjum tímum. 

Alþjóðleg þróun

Það er óljóst hvað veldur aukningunni. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir líklegt að Prep-meðferðin svokallaða, fyrirbyggjandi meðferð við HIV, hafi áhrif. Menn upplifi sig örugga gegn HIV en gæti sín ekki á öðrum sjúkdómum. Þróunin sé ekki bundin við Ísland, sárasóttarsmitum meðal samkynhneigðra karla fjölgi víðar. Þórólfur hefur hvatt til þess að smokkar verði gerðir aðgengilegir í grunnskólum landsins til að fyrirbyggja kynsjúkdómasmit almennt. 

Áhyggjuefni að gamall og skæður sjúkdómur grasseri á ný

Árið 2017 var metár, það ár greindust 52 með sárasótt, í fyrra voru þeir 30 en fyrstu fimm mánuði þessa árs hafa 19 greinst, þar af 17 karlmenn og 2 konur.„Það er áhyggjuefni þegar gamall sjúkdómur og svona skæður er farinn að grassera og við erum farin að eigna okkur einhver met í því, við í Samtökunum 78 höfum verið að vinna að skipulagningu fræðslu og umræðufunda í haust þar sem við ætlum að ræða kynsjúkdóma og kynlíf almennt innan hinseginsamfélagsins á Íslandi,“ Segir Unnsteinn Jónsson, varaformaður Samtakanna 78.  

Færri muni eftir HIV-faraldrinum

Unnsteinn tengir aukninguna ekki endilega Prep-meðferðinni heldur nýjum tímum. „Ég held í rauninni að fólk sé værukærara af því það er langt síðan HIV-faraldurinn stóð hvað hæst. Eins og meðferðin fer fram hér á Íslandi og þeir sem eru á Prep á Íslandi fara á þriggja mánaða fresti í kynsjúkdómatékk og eru þar með skoðaðir rækilega, þeir sem taka Prep ættu að vera í minni hættu á að fá kynsjúkdóma.“ 

Áhugavert að fylgjast með þróuninni

Prep - meðferð hefur verið veitt á Smitsjúkdómadeild Landspítalans frá því í júlí í fyrra. Nú fá 158 samkynhneigðir karlmenn slíka meðferð. Forsenda fyrir því að fá meðferðina er að vera í ákveðnum áhættuhópi, stunda oft óvarið kynlíf eða vera með marga bólfélaga. Már Kristjánsson, yfirlæknir, áætlar að nú fái um 10-20% homma sem eru komnir út úr skápnum hér þessa meðferð. Hún er veitt á þriggja mánaða fresti og samhliða þurfa mennirnir að fara í kynsjúkdómatékk, Már segir nokkuð um að kynsjúkdómar greinist í slíku tékki, þar á meðal sárasótt. Hann vekur á að færri greindust með sárasótt í fyrra, eftir að meðferðin hófst og segir að það verði áhugavert að sjá hver þróunin verði á þessu ári, hvort tilfellum fjölgi eða fækki. Hugsanlegt sé að meðferðin og tékkið hafi ýtt undir greiningar en meðferðin gæti líka hafa aukið kæruleysi.