Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hugsanlegt að afturkalla hluta aðgerðanna

03.09.2014 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána, segir hugsanlegt að hluti aðgerðanna verði tekinn til baka, fari svo að ekki fáist fjármögnun fyrir þeim. Aðgerðin sé háð fjármögnun.

Þetta kom fram í viðtali við Tryggva Þór í Morgunútgáfunni.

Fram kom í fréttum  RÚV í gær að þrotabú Glitnis hyggist láta reyna á lögmæti bankaskatts fyrir dómi, en honum er ætlað að fjármagna lækkun húsnæðislána. „Ég held að varaplanið sé alltaf það að afturkalla hluta aðgerðanna, þetta er háð fjármögnun á hverju ári,“ segir Tryggvi Þór. Hann segist ekki hafa skilið formann slitastjórnar þannig að búið væri að ákveða að höfða dómsmál, heldur að menn myndu skoða málið rækilega og athuga með að fara í dómsmál. Hins vegar væri réttur stjórnvalda til að skattleggja borgara og fyrirtæki býsna sterkur og að löglærðir menn segi veik rök fyrir því að telja þetta ekki löglegt.

Tryggvi Þór segir einnig að þrátt fyrir að stjórnmálamenn hafi beintengt bankaskattinn við leiðréttinguna, þá sé það í rauninni ekki hægt. Hann bendir á að aðgerðin sé í raun fjármögnuð úr ríkissjóði. „Þrátt fyrir að stjórnmálamenn hafi beintengt þetta því að skatturinn sé lagður á út af þessu, þá er það í raun og veru ekki hægt, vegna þess að aðgerðin hún er bara fjármögnuð úr ríkissjóði, og einn af þeim sköttum sem voru hækkaðir til þess að standa undir heildarútgjöldum ríkissjóðs, voru bankaskattarnir. Þannig að það er ekki alveg hægt að beintengja það, þrátt fyrir að stjórnmálamenn geri það í umræðunni.“