Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hugsanlega stærsta hópuppsagnaár frá hruni

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Hundrað starfsmenn Arion banka misstu vinnuna í dag. Fleiri hafa ekki misst vinnuna í einu hjá fjármálafyrirtæki síðan haustið 2008. Hugsanlega verður árið í ár stærsta hópuppsagnaárið frá hruni. Forstjóri Vinnumálastofnunar telur að botninum sé ekki alveg náð. Hún skrifar hópuppsagnirnar nú á efnahagsástandið og aukna sjálfvirknivæðingu. 

Hópuppsögn? 

Hvað er hópuppsögn? Við þeirri spurningu eru eflaust mörg svör; hagræðingaraðgerð, orðrómur sem verður að veruleika, erfið ákvörðun, stefnubreyting, andlegt áfall, tímamót, faðmlög á göngum og fólk sem afritar gögn áður en það gengur út með allt sitt í pappakassa. Lagalega flokkast það sem hópuppsögn þegar atvinnurekandi segir á einum mánuði upp ákveðnum fjölda fastráðinna starfsmanna af ástæðum sem ekki tengjast hverjum þeirra um sig. 

Það hversu mörgum þarf að segja upp til að það teljist hópuppsögn fer eftir stærð vinnustaðarins.

  • Það telst hópuppsögn þegar fyrirtæki með 20 til 100 starfsmenn segir upp að minnsta kosti tíu manns.
  • Í fyrirtækjum með 100 til 300 starfsmenn felur hópupppsögn í sér að minnst tíu prósent starfsmanna er sagt upp.
  • Í stórum fyrirtækjum, með minnst 300 starfsmenn telst það hópuppsögn þegar minnst 30 fastráðnum starfsmönnum er sagt upp á einu bretti. 

Lá í loftinu

Í dag var 100 manns sagt upp hjá Arion banka, það hafði legið í loftinu að það yrði gripið til aðgerða, og í gær, þegar kom í ljós að öll fundarherbergi í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni höfðu verið bókuð, gerði starfsfólk sér grein fyrir að eitthvað var í aðsigi. Stjórn bankans samþykkti í morgun nýtt skipulag, sviðum fækkar, verkefni færast til og 100 missa vinnuna. Höggið er þyngst í höfuðstöðvunum. 

Þrengt að bönkum

Markmiðið með aðgerðinni er að auka arðsemi bankans og koma kostnaði undir fimmtíu prósent af tekjum. Í fréttatilkynningunni sem bankinn sendi frá sér eftir að stjórn hans hafði fundað í morgun segir að umhverfi fjármálafyrirtækja hafi breyst mikið á undanförnum árum, íþyngjandi breytingar á regluverki og sköttum hafi leitt af sér mikinn viðbótarkostnað og eiginfjárkrafa og skattar umfram það sem þekkist í nágrannalöndunum hafi skert samkeppnisstöðu banka. Loks hafi samkeppni frá lífeyrissjóðum, ríkisbönkum, fjártæknifyrirtækjum og minni fjármálafyrirtækjum sem lúti öðrum lögmálum en kerfislega mikilvægir bankar aukist verulega. Vegna þessa hafi arðsemi bankans verið of lítil um nokkurt skeið. Í fyrra var arðsemi eiginfjár 3,7% en stefna bankans er að hún sé umfram tíu. Katrín Júlíusdóttir, formaður samtaka fjármálafyrritækja segir mjög hafa verið þrengt að bönkum undanfarin ár, aukin gjöld og skattar sem ekki tengist hagnaði. Þetta hafi töluverð áhrif á reksturinn. „Hvað hafa menn þá svigrúm til að gera? Þá eru það aðrir hlutar í rekstrinum, mannahald þar á meðal. Fjármálaeftirlitið og fleiri hafa bent á að kostnaðurinn í kerfinu er hár og það er kannski eitthvað sem við þurfum að fara að skoða í fullri alvöru og án allra fyrirframgefinna hugmynda,“ segir Katrín.  

Skammt stórra högga á milli

Skömmu eftir að tilkynnt var um uppsagnirnar í Arion banka bárust fréttir af því að 20 hefði verið sagt upp í Íslandsbanka, almennar hagræðingaraðgerðir. Í gær var svo 87 flugmönnum sagt upp hjá Icelandair.

Þessa dagana virðist skammt stórra högga á milli en er þetta hluti af einhverri þróun? Hrunárið 2008 misstu 5100 vinnuna í hópuppsögnum, á fyrstu árum eftir hrun nam fjöldinn hátt í áttahundruð manns árlega en svo dró úr, um 200 til 300 misstu vinnuna í hópuppsögnum á árunum 2012 til 2014 en frá árinu 2016 hefur þeim fjölgað ár frá ári. Á þessu ári hafa allavega 809 misst vinnuna í hópuppsögnum, ekki liggur fyrir hvort flugmennirnir 87 sem misstu vinnuna hjá Icelandair í gær, bætast við, Vinnumálastofnun hefur ekki borist tilkynning vegna þeirra. Ef flugmennirnir bætast við verður árið 2019 stærsta hópuppsagnaárið frá hruni.

Sjálfvirknivæðingin telur

Spegillinn spurði Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar hvað helst skýrði sveiflur í hópuppsögnum. „Það eru ýmsar ástæður fyrir auknum fjölda hópuppsagna en meðal annars er þetta samdráttur, við erum á samdráttarskeiði, það er alveg ljóst. Það er fleira sem spilar inn í. Það er náttúrulega sjálfvirknivæðingin, við erum í miðri fjórðu iðnbyltingunni og eitthvað á þessu á rætur að rekja til þess. Í okkar tilfelli hér á landi er það svo fall Wow air, eftir það dró saman í ferðaiðnaðinum. Það eru ýmsir samverkandi þættir sem skýra þetta,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. Telur hún að búast megi við fleiri hópuppsögnum á næstu mánuðum? „Ég þori ekki að fara með það, mér sýnist að minnsta kosti að uppsagnir hjá fyrirtækjum muni halda áfram, hvort það nái því að verða hópuppsagnir veit ég ekki. Mér sýnist að botninum sé ekki alveg náð en ég vona að það verði fljótlega upp úr áramótum.“ Hún telur ekkert útlit fyrir að met ársins 2008 verði jafnað á næstu árum, þrátt fyrir aukna sjálfvirkni og hugsanlegan samdrátt. „Þegar bankar falla, guði sé lof þá gerist það vonandi ekki nema einu sinni á öld, ég sé slíkt ekki í kortunum, ég sé bara samdráttarskeið sem vonandi varir sem styst og við komum okkur sem fyrst upp úr.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Unnur Sverrisdóttir.

Svipaðar mynstur og síðustu ár

Unnur segir að  uppsagnirnar í ár hafi verið svipaðar uppsögnum síðustu ára, bara fleiri. „Þetta dreifist mjög jafnt milli atvinnugreina, alltaf eitthvað í fiskvinnslu, eitthvað í byggingariðnaðinum og náttúrulega í ferðaþjónustunni núna, það eru 79 á þessu ári, það kannski stendur upp úr árið 2019. Að öðru leyti er þetta svipað mynstur síðastliðin þrjú ár, nema þessi aukning sem við sjáum.“

Ekki stærri uppsögn hjá fjármálafyrirtæki frá hruni

Hvað um hópuppsagnir hjá bönkum, hafa verið svona stórar uppsagnir síðastliðin ár? „Nei, við höfum ekki séð þessa stærðargráðu, ekki síðan í hruni, ekki hjá fjármálafyrirtæki. Þetta er sú langstærsta.“

Hún segir ekki algengt að fyrirtæki segi upp hundrað manns án þess að verða einfaldlega gjaldþrota.

Hópur sem þurfi kannski ekki þjónustu

Vinnumálastofnun er að sögn Unnar boðin og búin að aðstoða það fólk sem missti vinnuna hjá Arion banka og Íslandsbanka í dag. „Við höfum haft samband við stéttarfélagið og boðið fram aðstoð okkar, látið vita af því, við getum kannski aðstoðað við gerð ferilskrár og umsóknir því ég býst náttúrulega við því að allt þetta fólk fari beint í blússandi atvinnuleit.“

Þetta er hópur sem þarf kannski ekki að hafa mjög miklar áhyggjur af, fólk með mikla menntun og margt með reynslu.  

„Við bindum miklar vonir við að þau þurfi lítið á okkar þjónustu að halda, heldur geti nýtt þennan tíma, uppsagnarfrestinn sinn, til að finna aðra vinnu. Flestallir eru með þrjá mánuði og sumir með sex, þetta mun dreifast fram eftir vori á næsta ári. Við vitum ekki hvort einhverjir þurfa á atvinnuleysisbætur fyrr en fyrsta september, þá kannski sjáum við framan í fyrsta hópinn ef ekki hefur gengið í atvinnuleitinni.“