Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hugsanlega síðasta ólöglega páskabingóið

19.04.2019 - 16:54
Mynd: Barði Stefánsson / RÚV
Vantrú, samtök trúleysingja, stóð fyrir bingói á Austurvelli í Reykjavík í dag líkt og þau hafa gert á föstudaginn langa í meira en áratug. Þegar fréttastofu bar að garði var hvergi lögreglu að sjá þótt bingóspil sé meðal þess sem er bannað í dag og á öðrum helgidögum samkvæmt lögum. Það gæti þó breyst því fyrir Alþingi liggur frumvarp dómsmálaráðherra um að fella niður ákvæði um helgadagafrið sem banna tiltekna þjónustu, skemmtanir og afþreyingu á helgidögum þjóðkirkjunnar.

Hjalti Rúnar Ómarsson, gjaldkeri Vantrúar, vonast til að bingóið í dag verði síðasta ólöglega páskabingóið. „Það hefur áður verið reynt að afnema lögin en það hefur ekki tekist þannig að ég er sæmiega bjartsýnn.

Ef að lögunum verður breytt, ætlið þið þá að halda áfram að hafa bingó á þessum degi?

Við höfum ekki tekið ákvörðun um það en þetta er orðið svona hefð, þannig að vonandi. Ég býst við að við höldum áfram.“
 

Mynd með færslu
 Mynd: Barði Stefánsson - RÚV
Þátttakendur í bingóinu með bingóspjöld.
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV