„Huggulegt að eiga margar mömmur“

Mynd: ÁE / Álfheiður Erla

„Huggulegt að eiga margar mömmur“

26.02.2020 - 11:13

Höfundar

Sigríður Thorlacius söngkona ólst upp í miklum systrafans og segist hafa verið dekrað örverpi sem leit mikið upp til systra sinna sem allar voru í kór. Hún ákvað að gera það sama og gekk til liðs við kórinn og fann hún sig svo vel í söngnum að hún ákvað að gera hann að ævistarfi sínu. Hún er að undirbúa tónleikaferð og plötuútgáfu með hljómsveitum sínum, GÓSS og Hjaltalín.

Söngkonan Sigríður Thorlacius stendur í ströngu um þessar mundir ásamt hljómsveit sinni Hjaltalín í að undirbúa útgáfu fyrstu plötu sveitarinnar í átta ár. Platan er nú þegar komin með nafn en það er enn algjört leyndarmál, að sögn Sigríðar sem var gestur í Mannlega þættinum á Rás 1. Sigríður, sem er fædd og uppalin í Reykjavík, hefur verið virk í tónlistarsenunni á Íslandi í meira en áratug. Hún er ein af þeim sem stofnuðu Hjaltalín árið 2008, síðar hljómsveitina GÓSS og nýverið söng hún inn á plötu tónlistarkonunna GDRN.

Fór í Hamrahlíðarkórinn eins og stóru systurnar

Hún er langyngst fimm systra en tvær eldri systur hennar létust eftir veikindi og eru þær nú þrjár eftir. Solveig systir hennar heitin, sem var næst Sigríði í aldri, var ellefu árum eldri en hún svo Sigríður var mikið örverpi og naut hún þess að vera dekruð af eldri systrum sínum. „Það var voða huggulegt fyrir mig að eiga margar mömmur,“ segir hún stolt.

Systur hennar voru líka miklar fyrirmyndir í lífi Sigríðar sem ákvað að feta í fótspor þeirra og komast í Hamrahlíðarkórinn sem þær höfðu allar verið í. Fór hún því í Menntaskólann við Hamrahlíð og kynntist þar meðal annars kollega sínum Högna Egilssyni sem síðar átti eftirverða einn hennar nánasti samstarfsmaður í tónlist en þau eru söngvarar og stofnmeðlimir hljómsveitarinnar Hjaltalín. Eftir Menntaskóla hélt hún til Parísar þar sem hún dvaldi í eitt ár og drakk í sig menninguna, rauðvín og gott kaffi. Þegar hún kom til baka sótti hún um í FÍH og hóf þar söngnám. 

Krakkar og kjánar sem fannst æði að vakna í nýrri borg

Hjaltalín samanstendur af tónlistarfólki sem Sigríður kynntist ýmist í kórnum og í söngnáminu. Sveitin varð til árið 2008 en fyrsta plata þeirra kom út árið 2009. Platan hér Sleepdrunk seasons og muna margir eftir smellum á borð við Goodbye July/Margt að ugga og ábreiðu þeirra af lagi Páls Óskars Þú komst við hjartað í mér sem bæði fengu mikla spilun. Önnur plata þeirra, Alpanon, kemur út tveimur árum síðar og sveitin fylgdi henni eftir með eftirminnilegu tónleikarferðalagi um heiminn. „Við ferðuðumst um í rútu og það gekk vel, var ævintýri og gaman,“ rifjar hún upp. „Ég er ekki viss um að það myndi ganga eins vel í dag. Eftir því sem fólk eldist verður það frekara á sjálft sig og plássið sitt en þarna vorum við bara krakkar og kjánar sem fannst æði að vakna í nýrri borg á hverjum degi.“

Áttuðu sig fljótlega á því að raddirnar pössuðu saman

Guðmundur Óskar og Sigríður eru vinnufélagar og vinir í Hjaltalín. Í gegnum hann kynnist Sigríður svo Sigurði bróður hans og náðu þau þrjú strax mikilli tengingu. Bræðurnir bjuggu saman á þeim tíma í bílskúr á Flókagötu þar sem mikið kaffi var drukkið, tónlist leikin og heimsmálin voru krufin. „Við náðum einhvern veginn saman sem einstaklingar og vorum fljót að átta okkur á því að raddirnar pössuðu saman,“ segir Sigríður. Þau stofnuðu svo hljómsveitina GÓSS saman sem sendi frá sér plötuna Góssentíð á síðasta ári.

Með hækkandi sól er að ýmsu að hyggja hjá þeim því sveitin fer á sumar í tónleikarferð um landið á bíl Sigurðar sem þau kalla einfaldlega Góssið. Skipulagning á ferðalaginu þegar hafin.

Rætt var við Sigríði Thorlacius í Mannlega þættinum.

Tengdar fréttir

Popptónlist

JólaGÓSS í hátíðarskapi

Popptónlist

Góss - Góssentíð