Hugarflug, árleg ráðstefna Listaháskólans, er vettvangur starfsfólks, nemenda og annarra sem stunda sköpun og rannsóknir á fræðasviðum lista eða í návígi þeirra til að mætast og spyrja spurninga, gera tilraunir og kynna verkefni sín. Ætlunin er að greiða fyrir möguleikum á samstarfi þvert á ólík svið og plægja akurinn fyrir nýjar tengingar og samræður.
Lykilfyrirlesarar ráðstefnunnar eru Hildur Guðnadóttir og Egill Sæbjörnsson sem hvort um sig hafa vakið mikla athygli fyrir notkun sína á frásagnarmöguleikum listarinnar. Sigurganga Hildar hefur vakið mikla athygli. Hún varð fyrir skemmstu fyrst Íslendinga til að fá Óskarsverðlaun, auk þess sem hún getur státað af því að hafa unnið til Emmy, Golden Globe, Grammy og BAFTA verðlauna á fimm mánaða tímabili.