Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hryllileg huggulegheit og kósý krimmar í heimsfaraldri

Mynd: pexels / pexels

Hryllileg huggulegheit og kósý krimmar í heimsfaraldri

23.03.2020 - 08:40

Höfundar

Rafbókasafnið er besti staður í heimi, segir Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur. Hún mælir með að fólk nýti sér ófyrirséðu inniveruna, sem nú blasir við flestum landsmönnum, til að lesa dularfullar glæpasögur, hlusta á klassíska tónlist og fara í rafrænt ljóðaferðalag um stræti borgarinnar.

Í heimsfaraldrinum sem nú geisar eru margir landsmenn, sem venjulega eru á fleygiferð og með þéttskipaða dagskrá, knúnir til að taka í bremsuna og halda sig heima við. Úlfhildur, bókavörður hjá Borgarbókasafninu, hvetur innilokaða samlanda sína til að glugga loks í bækurnar sem lítill tími gafst áður til að lesa. Og það þarf alls ekki að fara langt til að næla sér í bók.

Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni
Úlfhildur Dagsdóttir segir að nú sé ráð að dúlla sér við lestur.

Hægt er að nýta sér bókasöfnin til að verða sér úti um lesefni en þótt þau séu enn opin veigra sér margir við að heimsækja þau vegna smithættunnar. Borgarbókasafnið býður upp á ýmiss konar þjónustu fyrir þennan hóp, meðal annars Rafbókasafnið sem geymir ýmsa gullmola, glæpi, ástir og ævintýri. Safnið er líka besti heimur allra heima að sögn Úlfhildar. „Þar er alveg hægt að dunda sér í nokkrar vikur,“ lofar hún.

Meiri hluti þess efnis sem þar er aðgengilegt er á ensku en eitthvað er þó til á íslensku á safninu sem geymir ríflega 6.000 titla. Skráning fer fram beint í gegnum heimasíðuna, það eina sem þarf að hafa til reiðu til að fá lánaða bók er að hafa er bókasafnskort sem er í gildi. Þeir sem ekki eru með eitt slíkt geta keypt það beint í gegnum síðuna og fyrir það fæst ótakmarkaður aðgangur að safninu. Einnig er hægt að verða sér úti um smáforrit sem kallast Libbý og er hún sérlega vinaleg og hjálpfús að sögn Úlfhildar. „Hún tekur vel á móti þér og hjálpar þér að skrá þig á safnið. Þú notar hana í símanum og í spjaldtölvunni og færð bók að láni,“ útskýrir hún. „Þegar þú ert búin að lesa bókina geturðu skilað henni eða hún skilar sér sjálf svo þú færð aldrei sekt. Þetta er eins frábært og hægt er.“

Kósý krimmar og hryllileg huggulegheit eru ofarlega á blaði hjá Úlfhildi um þessar mundir. „Það er voðalega þægilegt að lesa hæfilega fyndna bók um kerlingar og karla sem eru að dunda sér við að rannsaka dularfull mál.“ Eftirlætissería hennar þessa dagana er eftir Stephanie Barron og fjallar um Jane Austen sem hefur brugðið sér í óvænt hlutverk. Hún birtist þar lesandanum ekki bara sem rithöfundurinn sem við þekkjum heldur er hún komin í spæjarabúning, og leysir meðfram skáldsagnaskrifum hin ýmsu sakamál. „Þetta gleður mig stanslaust,“ segir Úlfhildur kímin.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Mörg ljóð hafa verið ort um hverfi og kennileiti borgarinnar.

Á laugardag var alþjóðadagur ljóðsins og leggur Úlfhildur til að ljóðaunnendur „dúlli sér við“ að lesa nokkur ljóð í inniverunni. Hún nefnir sérstaklega bókina Stúlku eftir Júlíönu Jónsdóttur sem er fyrsta bók eftir konu sem kom út á Íslandi.

Á heimasíðu Borgarbókasafnsins má einnig finna Ljóðakort Reykjavíkur. Með því að rýna í ljóðakortið er hægt að rölta rafrænt um götur borgarinnar og lesa ljóð sem tengjast hverjum stað fyrir sig. Í Skerjafirði er til dæmis hægt að lesa ljóðið Vor í Skerjafirði eftir Gerði Kristnýju, í Viðey ónefnt ljóð Lindu Vilhjálmsdóttur um eyjuna og ljóðið Öldugranda eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur þar um slóðir. 

„Svo erum við líka með aðra uppáhalds dúllu sem er tónlistarveitan Naxos,“ segir Úlfhildur. „Þar er efni, meirihlutinn klassískur, en það er annað sem margir segjast ekki hafa tíma til að gera. Að hlusta á klassíska músík og finna hana. Nú er tíminn til að gera það."

Rætt var við Úlfhildi Dagsdóttur í Síðdegisútvarpinu.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Átta heilandi hugleiðslur fyrir sóttkvína

Sjónvarp

Fjórar stórgóðar fordæmalausar seríur í sóttkvína