Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hryðjuverkaógn hér á landi ekki aukist

16.11.2015 - 19:46
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Hryðjuverkaógn hér á landi hefur ekki aukist eftir árásirnar í París að mati embættis ríkislögreglustjóra. Þó sé brýn þörf á auknum búnaði og mannafla til að bregast við ógnarverkum.

 

Vantar frekari búnað og mannafla

Forsætisráðherra, innanríkisráðherra og ríkislögreglustjóri funduðu um viðbrögð við hryðjuverkaárásunum í París í stjórnarráðshúsinu í gær. En strax á föstudagskvöld fór í gang viðbragðsáætlun vegna árásanna, hér á landi.

„Við ræddum almennt um stöðu löggæslunnar hér á landi og getuna til að takast á við ógnarverk. Ég gerði þeim grein fyrir því, forsætis- og innanríkisráðherra, að það þurfi að efla getu lögreglunnar og styrk hennar. Þá er ég bæði að tala um mannafla og búnað“ segir Haraldur. Þá þurfi sérsveit, alþjóðadeild og greiningadeild ríkislögreglustjóri frekari styrk.

Ekki aukin hryðjuverkaógn hér á landi

Í febrúar síðastliðnum gaf ríkislögreglustjóri út skýrslu um mat á hættu af hryðjuverkum. Hættustig á Íslandi var metið í meðallagi. Það þýðir að almennt er talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum. Haraldur segir ekki þörf á að hækka hættustigið í ljósi atburðanna í París.

„Nei, ekki eins og staðan er núna. Við sjáum ekki beina ógn gegn Íslandi á þessari stundu. Vonandi verður það aldrei. En við erum með varann á og höfum gripið til ákveðina ráðstafana.“

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu felast ráðstafanir meðal annars í að kalla saman vástigsnefnd ríkislögreglustjóra vegna flugverndar en hún kom saman til fundar í dag. Í nefndinni sitja fulltrúar ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á Suðurnesjum og flugmálayfirvöld en hlutverk þeirra er að meta hvort grípa þurfi til sérstakra ráðstafanna í flugi vegna hryðjuverkanna. Lítið meira sé hægt að segja um ráðstafanirnar.

„Eðli málsins samkvæmt þá get ég ekki sagt frá því hvaða öryggisráðstafanir það eru sem við grípum til en þær eru í nokkrum þáttum en ég get ekki farið út í einstaka atriði og líst þeim í smáatriðum.“