Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hryðjuverk ekki verið raunveruleg ógn hér

23.03.2016 - 08:05
Mynd: RÚV / RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að hryðjuverkaárásin í Brussel í gær hafi verið árás á vestræna lífshætti. Aukinn viðbúnaður hafi verið settur á Keflavíkurflugvelli án þess að hækka hættustigið. Gunnar Bragi segir erfitt að bregðast við hættu á hryðjuverkum.

„Ég ímynda mér að núna á næstunni munu margir verða tilbúnir til að fórna meira af sínu frelsi til að tryggja sér öryggi eftir þessar árásir. Hvernig menn bregðast við því er ómögulegt að segja en það er held ég alveg ljóst að það verður settir auknir fjármunir og mannafli í lögreglu og þess háttar og mögulega einhver neyðarlög framlengd og sett í gang sem fylgir einhver skerðing á frelsi okkar. Við að sjálfsögðu viljum lifa þessu lífi sem við þekkjum sem allra lengst og best. Ég held til dæmis að þrátt fyrir þetta á fólk ekki að hætta að ferðast, það á einfaldlega að fylgjast með og virða það sem stjórnvöld segja og svo framvegis,“ sagði Gunnar Bragi í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Aukinn viðbúnaður en hættustig ekki aukið

Gunnar Bragi segir að engin dæmi séu um að menn hafi verið með áform um slík voðaverk hér á landi. „Nei, ég hef aldrei heyrt nokkurn skapaðan hlut um slíkt. Það eru engin dæmi um slíkt.“ 
Hættumatsnefnd ríkislögreglustjóra hafi strax komið saman og viðbúnaður aukinn á Keflavíkurflugvelli án þess að hækka hættustigið. „Ég held að það sé í rauninni mjög skynsamleg viðbrögð á meðan menn eru að meta stöðuna. Það er erfiðara að komast til Íslands og framkvæma svona. Við erum svolítið langt í burtu og við erum fá. En við getum aldrei útilokað samt, við getum aldrei sagt að ekkert svona geti eða muni gerast á Íslandi.“ 

Ekki megi láta hatur og ótta ráða för

Gunnar Bragi segir mikilvægt að voðaverkin hafi ekki áhrif á móttökur flóttamanna. „Margir af þessum aðilum sem eru að fremja þessi hryðjuverk hafa búið í Evrópu um einhvern tíma og eru ekki að koma með flóttamannastrauminum. Að því leytinu til eigum við að bjóða hinn vangann og hlúa að flóttamönnum sem sannarlega þurfa á aðstoð okkar að halda. Að sama skapi verðum við að vera með tæki og tól til að finna þá og taka á þeim sem eru raunverulegir hryðjuverkamenn. Það er fín lína þarna á milli. Ef við ætlum að fara gegnum þetta á hatri og ótta þá munum við sjá heimsálfuna með gamalkunnu sniði eins og hún var fyrir ekki löngu síðan.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV