Hrósa hreppsnefnd en skamma Vegagerðina

25.01.2019 - 08:49
Mynd með færslu
Appelsínugul leið R þverar Þorskafjörð og liggur um Reykhóla Mynd: Multiconsult
Stjórn Landverndar hrósar hreppsnefnd Reykhólahrepps fyrir að sýna umhverfi sínu umhyggju með því að taka til skoðunar nýja leið vegna veglagningar í sveitarfélaginu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landvernd vegna veglagningar í Reykhólahreppi.

Landvernd átelur um leið Vegagerðina fyrir að sýna ekki sömu framsýnu viðhorf og hreppsnefndin gagnvart nýjum hugmyndum um endurbætur á Vestfjarðavegi sem falli mun betur að verndun verðmætrar og einstakrar náttúru Breiðafjarðar. Þá sakar Landvernd Vegagerðina um yfirgangssemi gagnvart litlu sveitarfélagi sem eigi mikið undir góðum samgöngum og góðu samstarfi við Vegagerðina.

„Landvernd vill beina því til Vegagerðarinnar eins og margendurtekið hefur verið í umsögnum samtakanna um hina svokölluðu Þ-H leið að þverun fjarðanna á leiðinni er óásættanleg vegna hættu á neikvæðum áhrifum á grunnsævi, eðli sjávarstrauma og  lífríki fjarðanna,“ segir í fréttatilkynningu Landverndar. „Þá hvetur Landvernd Vegagerðina til að kynna sér vel leið R og nýjungar í brúarsmíð sem lýst er í skýrslu norska ráðgjafafyrirtækisins Multikonsult sem unnin var fyrir Reykhólahrepp.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi