Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hreinsa þarf Jalangurssteininn

21.02.2011 - 07:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Sérfræðingar frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi hafa undanfarna viku unnið að því að finna bestu aðferðina til að hreinsa burtu málningu sem 15 ára veggjakrotari úðaði á stærri Jalangurssteininn um síðustu helgi. Vonast er til að málningin hafi ekki farið inn í steininn.

Steinarnir á Jalangri, eða Jellingsteinarnir, eru einar merkustu fornminjar Danmerkur. Þann stærri lét Haraldur blátönn Danakonungur, koma fyrir við haug föður síns Gorms gamla á seinni hluta 10 aldar, „sá Haraldur sem vann Danmörku alla og Noreg og Dani gerði kristna“ eins og stendur á steininum. Minjarnar á Jalangri, haugar Gorms og Þyríar Danabótar svo og steinarnir eru á heimsminjaskrá Unesco.