Hreindýrin hafa það gott á Íslandi

21.10.2019 - 14:30
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
„Síðustu tíu árin hefur stofninn tvöfaldast. Við höfum ekki alveg getað fylgt því eftir. Dýrunum hefur fjölgað þrátt fyrir að veitikvótinn hafi verið aukinn,“ segir Skarphéðinn Þórisson, hreindýrasérfræðingur á Náttúrustofu Austurlands. Stofan vaktar stofninn og fylgist með afkomu hans. Hluti af þeirri vinnu er að telja hreindýr að sumri og vetri. Landinn fékk að slást með í för þegar stóra hreindýratalningin var gerð í júlí.

„Það er talið á þessum tíma því þá eru kýrnar í stærstum hópum, þær bera í maí og eru þá stakar eða í litlum hópum svo fara þær að safnast saman þannig að þetta eru fáir og stórir hópar,“ segir Skarphéðinn. Teknar eru myndir af hópunum úr lofti og svo er talið í tölvu. 

„Síðan leggjum við til veiðikvóta árlega og skiptum honum niður á svæði og tilgangurinn með því er að vera með sjálfbæran stofn sem verður ekki of stór,“ segir Skarphéðinn. „Tölur benda til þess að frjósemi og nýliðun sé í mjög góðu lagi núna. Við berum okkur oft saman við Noreg, þaðan sem dýrin koma, og þetta er eins og best gerist þar þannig að dýrin hafa það mjög gott hér á Íslandi.“
 

thorgunnuro's picture
Þórgunnur Oddsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi