Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hreindýr syntu inn í höfnina

12.03.2015 - 23:16
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Ásgeirsson
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Ásgeirsson
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Ásgeirsson
Gunnar Ásgeirsson, skipstjóri á Höfn í Hornafirði, fékk óvenjulegan félagsskap á leið sinni til hafnar í dag. Hann rakst á tvö hreindýr á sundi í firðinum. „Svo bauð ég þeim bara með í land.“

Hreindýrin hafa undanfarið hafst við í eyjum í firðinum. Gunnar segir að þar sé ekki mikið fyrir þau að hafa en þó eitthvað. Í dag höfðu þau lagst til sunds þegar Gunnar sá þau. Þó slíkt sé ekki dagleg sjón þá sigldi Gunnar framhjá hreindýrum á sundi fyrr á þessu ári. „Þau fara bara þangað sem þau vilja.“ Hann segir sundið hafa gengið vel hjá hreindýrunum sem hann rakst á í dag. „Þau eru létt á sundi. Þau eiga auðvelt með þetta.“

En það er eitt að rekast á hreindýr á sundi í fjörðum og annað að fylgja þeim til hafnar. Það hefur Gunnar ekki upplifað áður, en hann tók myndirnar af dýrunum sem birtast með fréttinni. Þar má sjá dýrin synda til hafnar, meðal annars framhjá húsnæði Skinneyjar-Þinganess. Eftir að Gunnar fylgdi dýrunum til hafnar komu þau sér í land og hurfu síðan á braut eitthvað út úr bænum.

Birkir Birgisson birti myndirnar á Facebook-síðu sinni í kvöld. Hann segir að dýrin hafi farið inn í port á hafnarsvæðinu eftir að þau komið til lands en hann viti ekki hvað varð síðan af þeim, hugsanlega hafi þau farið til fjalla.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV