Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hreiðar Már, Sigurður og Magnús sýknaðir

04.07.2019 - 11:34
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa - RÚV
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í svokölluðu CLN-máli undir hádegi.

Málið snerist um 70 milljarða króna lánveitinga til aflandsfélaga í tengslum við viðskipti með skuldatryggingar á bankann fyrir hrun. Hreiðar Már og Sigurður voru ákærðir fyrir umboðssvik vegna ólöglegra lánveitinga og Magnús fyrir hlutdeild í brotunum. 

Eitt stærsta hrunmálið

Málið er eitt stærsta hrunmálið þegar horft er til upphæðar þeirra lána sem Kaupþing veitti eignarhaldsfélögum til að fram gætu farið viðskipti með lánshæfistengd skuldabréf. 

 

Ákært var í málinu árið 2014 og voru sakborningar sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2016. Um það leyti sem dómurinn var kveðinn upp gerði Deutsche Bank samning við Kaupþing um að síðarnefndi bankinn fengi verulegan hluta af lánsfjárhæðinni endurgreidda. Spegillinn á RÚV greindi frá þessu samkomulagi þegar málið var komið fyrir Hæstarétt og með þær upplýsingar til hliðsjónar ógilti Hæstiréttur dóminn, enda þyrfti að rannsaka málið betur.

Málið fór svo aftur fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur en sakborningar kröfðust frávísunar enda hefði ákæruvaldið ekki rannsakað það nógu vel að nýju. Héraðsdómur féllst á frávísunina en niðurstaða Landsréttar var að taka ætti málið til meðferðar í héraði að nýju.