Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hrefnuveiðimenn halda sínu striki

28.02.2016 - 23:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hrefnuveiðmenn ætla að veiða svipaðan fjölda dýra og síðustu ár. Fram hefur komið að stórhvelaveiðar verða ekki stundaðar hér við land í ár þar sem ekki hefur gengið sem skildi að afsetja afurðirnar. Hrefnuveiðimen ætla hinsvegar að halda áfram veiðum, enda hafi sala afurðanna gengið vel.

„Við höldum okkar striki og höldum áfram í vor. Það hefur gengið ágætleg með okkar afurðir á markaði,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, formaður Félags hrefnuveiðimanna.  Aðspurður segir hann allt hafa selst sem veiðst hefur og gott betur, þvi menn hafi neyðst til að flytja inn kjöt frá Noregi til að anna eftirspurn. „Veiðarnar hafa kannski ekki gengið alveg eins og best verður á kosið. Við höfum verið að taka svona þrjátíu dýr á ári.  En við þurfum svona fimmtíu dýr á ári til að anna eftirspurn,“ segir Gunnar.

Þessi aflabrestur kemur nokkuð á óvart í ljósi þess að hrefnuveiðimenn hafa haldið því á lofti, að nóg sé af hrefnu við Íslandsstrendur. Gunnar telur enda að vandamálið sé ekki skortur á hrefnu, heldur haldi hún sig á annarri slóð. „Við höfum aðallega verið að gera út hérna í Faxaflóa og suður af landinu. Og það kom í ljós við talningu í fyrra að hrefnan er ekki á þeim slóðum sem hún hefur haldið sig á síðustu ár. Það er margt sem kemur til en hún er allavega að færa sig á aðrar slóðir," segir Gunnar. 

gislie's picture
Gísli Einarsson
Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV