Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hrefnukjöt slær í gegn

29.07.2012 - 20:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Hrefnukjöt er að slá í gegn, segir Hrefna Sætran, veitingamaður í miðborg Reykjavíkur. Hún segir að best sé að elda kjötið sem minnst.

Áður fyrr þótti við hæfi að velta hrefnukjöti upp úr eggjum og raspi, steikja það vel á pönnu og bera það svo fram með miklum lauk. En smekkur manna breytist. Það þykir t.d. hið mesta hnossgæti, borið fram með wasabi-rjómaosti, djúpsteiktri svartrót og fleira hnossgæti, en fyrst fer það í örstutta stund á grillið.

Hrefna Sætran segir að best sé að hafa grillið vel heitt og setja kjötið á það í hæsta lagi eina mínútu. Síðan sé það sneitt niður og borið fram sem forréttur.

Hrefna segir að erlendir gestir veitingastaðarins séu mishrifnir af því að hvalkjöt sé á boðstólum. Margir staðir séu komnir með hrefnukjöt. Einnig eldi fólk hrefnu heima hjá sér. Hún merki það af því að margir spyrji hvernig best sé að elda það. Hún ráðleggur fólki að elda sem minnst, þá sé kjötið best og þá sleppi maður við lýsisbragði.

Og það má jafnvel framreiða kjötið hrátt, til dæmis svokallað nigiri-sushi, með hrísgrjónum undir.

Matreiðsluþættir í haust

Landsmenn geta fylgst með Hrefnu Sætran í nýjum matreiðsluþætti sem verður sýndur á RÚV í haust. Hún segir ekki loku fyrir það skotið að hún bjóði upp á hrefnukjöt í þættinum, að minnsta kosti einn rétt.