Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hraunið næði yfir stóran hluta Reykjavíkur

21.09.2014 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekkert hefur dregið úr hraunframleiðslunni í jarðeldunum norðan Vatnajökuls. Þetta kemur fram í skýrslu frá fundi vísindamannaráðs almannavarna í morgun. Eldarnir halda áfram með sama hætti og síðustu daga og engin merki sjást um að þeir séu í rénun. Hraunbreiðan nær nú yfir 37 ferkílómetra lands.

Hraunið myndi ná yfir stóran hluta byggðar í Reykjavík, eins og sést á þessu korti. Hraunrennslið er enn öflugt og hraunið breiðir nú úr sér um miðbik hrauntungunnar, samkvæmt skýrslunni.

Vísindamenn við gosstöðvarnar telja að um 90% af gasinu frá jarðeldunum komi upp úr eldgígunum sjálfum en aðeins 10% úr hraunbreiðunni. Vart hefur orðið við dauða fugla á gosstöðvunum og almannavarnir brýna fyrir fólki að lífshættulegt geti verið að fara inn á lokað svæði.

Sig í öskju Bárðarbungu er svipað og síðustu daga og enn skelfur jörð þar af krafti. Einn stærsti skjálfti frá upphafi hrinunnar varð við öskjuna í morgun, 5,5 að stærð. Stærsti skjálftinn, af stærðinni 5,7, varð 26. ágúst. Lengst til hægri á þessari mynd sést hvernig askjan seig um 25 cm um leið og skjálftinn varð í morgun.