Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hraunið komið yfir veginn

26.09.2014 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Fram kom á fundi vísindamannaráðs almannavarna í morgun að nýja hraunið sé nú komið yfir vegslóðann á Flæðunum á nokkrum stöðum.

Sigið í öskju Bárðarbungu heldur áfram á svipuðum hraða og verið hefur. Engar breytingar sjást á vatnamælum sem ekki er hægt að skýra með veðurfarsbreytingum.

Lítillar gosmengunar hefur orðið vart í byggð í morgun og Veðurstofunni hafa ekki borist neinar tilkynningar um mengun. Það spáir stífri vestan- og norðvestanátt og búist við mengun austur af eldstöðinni fyrripart dags, en til suðausturs í kvöld. Íbúar sunnan Reyðarfjarðar, að Höfn í Hornafirði, gætu því orðið mengunar varir.

Um helgina býst Veðurstofan við lægðagangi yfir landið með tilheyrandi breytingum á vindátt. Spáin verði þá flókin og erfitt að henda reiður á því hvar mengunin er og hvert hún stefnir. Sífelldir snúningar í vindátt ættu að þýða að gasið staldri ekki lengi við á hverjum stað.