Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.
Hraungos er hafið í filippeyska eldfjallinu Taal, þar sem mikið öskugos braust út í gær og hrakti minnst 10.000 íbúa í nágrenni fjallsins á flótta. Taal, sem er um 70 kílómetra suður af höfuðborginni Manila, er næst-virkasta eldfjall Filippseyja, og óttast er að gríðarmikið sprengigos geti fylgt á hæla ösku- og hraungossins þá og þegar.
Allir skólar og flestar opinberar stofnanir í námunda við fjallið eru lokaðar í dag vegna eldgossins, eins og fjöldi fyrirtækja og kauphöllin í Manila. Flugmálayfirvöld vonast til að hægt verði að hefja flug frá alþjóðaflugvellinum í Manila að nýju í dag, en honum var lokað vegna öskugossins í gær. Til þessa hefur þurft að aflýsa um 240 flugferðum vegna gossins.
Gosið hófst í gær með látum, þegar mikil gufusprenging varð í fjallinu og grjóthnullungar þeyttust langar leiðir. Öskustrókur fylgdi í kjölfarið en snemma í morgun tilkynnti Eldfjalla- og jarðhræringastofnun Filippseyja að hraungos væri hafið. Fjallið gaus síðast árið 1977.