Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hráolíuverð á hraðri niðurleið

21.11.2018 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Heimsmarkaðsverð olíu hefur hríðfallið á undanförnum vikum. Hagfræðingur hjá Arion banka telur að hærri vextir og vísbendingar um minni hagvöxt séu líkleg orsök. Veiking krónunnar dragi þó úr jákvæðum áhrifum hér á landi. 

Frá 3. október hefur verð á tunnu af Brent-olíu lækkað um fjórðung, úr 86 dollurum í 63. Hráolíuverð er nú svipað og fyrir ári. 

Væntingar fyrirtækja hafa áhrif

Gunnar Bjarni Viðarsson, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka, segir að olíuverð hafi hækkað jafnt og þétt undanfarin þrjú ár. Líkleg ástæða fyrir lækkunum nú sé horfur á minni hagvexti en gert var ráð fyrir, sem dragi úr eftirspurn. „Og líka ákveðnar vísbendingar um að hækkandi vaxtastig á lánamörkuðum séu farin að hafa áhrif á fyrirtæki,“ segir Gunnar Bjarni. 

Verðlækkun tengd við yfirlýsingu Bandaríkjaforseta

Hráolíuverð féll um sjö prósent í gær og hefur verð á tunnu af bandarísku hráolíunni West Texas ekki verið lægra frá október í fyrra. Margir tengja þessa skörpu lækkun við yfirlýsingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta í gær, til stuðnings stjórnvöldum Sádi-Arabíu, í tengslum við morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi. „Menn túlka það þannig að Sádí arabar séu ólíklegri til að draga úr framleiðslu á hráolíu og ef þú dregur ekki úr einhverju þá er það líklegra til að hafa áhrif til lækkunar,“ segir Gunnar. 

Íslenskir neytendur gætu fundið mun

Hann segir að lækkun á hráolíuverði geti haft nokkur áhrif hér heima, til dæmis á vísitölu neysluverðs. Dollarinn hafi þó verið að styrkjast á móti krónu sem dragi úr áhrifum. „En það virðist vera, það er búið að vera það mikil lækkun á þessum hrávöruverðum, sérstaklega olíu að þetta ætti að leiða til lækkandi verðs á bensínstöðvum,“ segir Gunnar. Skeljungur sendi einmitt frá sér fréttatilkynningu rétt í þessu þar sem kemur fram að verð á bensíni hafi í dag verið lækkað um þrjár krónur og verð á dísilolíu um tvær krónur til að bregðast við breytingum á heimsmarkaðsverði.

Og þetta snerti auðvitað burðarfyrirtæki á Íslandi, eins og flugfélög og önnur flutningsfyrirtæki. „Ætti að hafa jákvæð áhrif á öll þau félög sem þurfa mikið bensín við sína framleiðslu þannig að ég myndi segja að það hafi jákvæð áhrif á þau, að öllu öðru óbreyttu það er að segja,“ segir hann. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV