Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hraktist í sjö daga í fárviðri niður af Drápsfjallinu

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons

Hraktist í sjö daga í fárviðri niður af Drápsfjallinu

27.03.2020 - 14:04

Höfundar

Eitt af afrekum fjallgöngusögunnar er þegar nepalski göngumaðurinn Ang Tsering lifði af meira en sjö daga hrakningar án matar og vatns í bandbrjáluðu illviðri, hátt á fjallinu Nanga Parbat í vestanverðum Himalajafjöllum, sumarið 1934. Hann hlaut þó litla frægð fyrir enda var hann bara Sjerpi, ráðinn sem burðarmaður fyrir þýska göngugarpa.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um leiðangur Þjóðverja á fjallið Nanga Parbat 1934 og hrikaleg endalok hans í tveimur þáttum. Báða þætti má finna hér í færslunni. 

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Fyrri þáttur.

Nanga Parbat er níunda hæsta fjall heims, 8126 metra hátt. Nafn þess merkir Nakta fjallið — sem það hlaut vegna þess hve eitt það virðist standa í landslaginu í kring, í Kasmír þar sem nú er Pakistan. En það er einnig kallað Drápsfjallið vegna þess hve margir hafa látið lífið í hlíðum þess.

Á fjórða áratugnum varð það þýskum fjallgöngumönnum mikið kappsmál að ná tindi Nanga Parbat. Enginn hafði þá enn komist á toppinn á neinum af hæstu tindum Himalajafjalla, og eftir að nasistar komust til valda í Þýskalandi varð þeim umhugað um að Þjóðverjar yrðu til þess fyrstir.

Einungis Bretar höfðu aðgang að hæsta tindinum Everest, svo að Þjóðverjar einbeittu sér að Nanga Parbat. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Þýsku og austurrísku leiðangursmennirnir 1934.

Með stuðningi þýskra stjórnvalda lagði þýskur leiðangur af stað á Nanga Parbat vorið 1934. Leiðtogi leiðangursins var göngugarpurinn Willy Merkl, sem hafði áður gert tilraun til að klífa fjallið tveimur árum áður en verið of lengi á leiðinni upp og þurft að hörfa. 

Aðrir leiðangursmenn voru flestir vanir fjallgöngumenn úr Ölpunum — tveir Austurríkismenn voru einnig með í för — en höfðu takmarkaða reynslu af himinháum Himalajafjöllum.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Leiðin sem Þjóðverjarnir ætluðu á tind Nanga Parbat.
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Willy Merkl í hlíðum Nanga Parbat.

Með í för var einnig fjöldi aðstoðar- og burðarmanna. Þeir voru flestir af þjóð Sjerpa sem býr í hinum enda Himalaja-fjallgarðsins, í Nepal við rætur Everest og annarra tinda. 

Sjerpar höfðu þá enga sérstaka fjallgönguhefð en voru eftirsóttir sem burðarmenn fyrir evrópska göngumenn þar sem þeir voru vanir landslaginu og þunnu háfjallaloftinu, og þóttu bæði harðir af sér og tryggir.

Tækifærin voru sömuleiðis fá í fátækum fjallaþorpum Nepals og því leituðu margir ungir Sjerpar fyrir sér í fjallamennsku. 

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Seinni þáttur.

Í júlí 1934, þegar fremstu göngumennirnir, Evrópumenn og Sjerpar, áttu ekki langt eftir á toppinn, skall á mikið óveður sem virtist aldrei ætla að slota. 

Merkl hafði því ekki um annað að velja en að hörfa í annað sinn og allir að haska sér niður. En ferðin niður af Nanga Parbat reyndist erfið. Á næstu dögum átti „Drápsfjallið“ eftir að reynast réttnefni — en í hlíðum fjallsins voru einnig unnin ótrúleg afrek. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Kalsárir Sjerpar nýkomnir niður af fjallinu.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 alla föstudagsmorgna klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10. Finna má fyrri þætti í spilaranum, á síðu þáttarins og í hlaðvarpi

Mynd með færslu
 Mynd: American Alpine Club
Ang Tsering á heimili sínu árið 2000.