Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraðhleðslustöðvum fjölgar um 40 prósent

11.11.2019 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Orkusjóður hefur veitt styrki til uppbyggingar hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið fyrir 227 milljónir króna. Samtals ná styrkirnir til 43 hleðslustöðva og eru nýju stöðvarnar talsvert öflugri en hinar fyrri.

Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, um uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum. Gert er ráð fyrir að minnsta kosti helmings mótframlagi framkvæmdarfyrirtækja og nemur heildarfjárfesting verkefnanna því 450 milljónum króna. Með uppsetningu stöðvanna fjölgar almennum hraðhleðslustöðvum um 40 prósent og verða 146 talsins og dreifast þær um allt land. 

Öflugri stöðvar í samræmi við öflugri rafbíla

Stöðvarnar eru af nýrri kynslóð hraðhleðslustöðva sem eru 150 kílóvött. Öflugustu stöðvarnar hafa hingað til verið 50 kílóvött og flestar eru 22 kílóvött. Á dögunum var styrkjum úthlutað til uppbyggingar rafhleðslustöðva við gististaði. Þá var ríflega 30 milljónum úthlutað úr Orkusjóði og voru 26 styrkir veittir til 112 hleðslupunkta. Þórdís kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir að öflugri hraðhleðslustöðvar hafi jákvæð áhrif á net hraðhleðslustöðva um allt land.

„Í mínum huga skiptir máli að halda því til haga að það er einfallega betri díll að við séum að keyra hér um á bifreiðum sem nota innlenda orkugjafa í stað þess að nota gjaldeyristekjur og kaupa það erlendis frá þar sem við ráðum ekki verðinu og það eru sveiflur og annað slíkt,“ segir Þórdís Kolbrún.

 

Mynd með færslu
Dreifing rafhleðslustöðva um landið eftir fyrirhugaða uppbyggingu.

Þórdís líkir útbreiðslu hraðhleðslustöðva við uppbyggingu farsímakerfisins á sínum tíma.

„Rafbílar eru að verða öflugri, og þessar hleðslustöðvar fylgja þeirri þróun, og þróunin er auðvitað hröð. Fyrir 10 árum vorum við að setja upp 3G-kerfi, nú er verið að vinna að því að setja upp 5G-kerfi. Þetta er að vissu leyti sambærilegt,“ segir Þórdís.

Ýmislegt nýtt til skoðunar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra segir að orkuskiptin gangi í heild sinni vel. Nýskráning á umhverfisvænni bifreiðum sé hlutfallslega mikil hér á landi og að stjórnvöld ýti undir þá þróun með niðurfellingu virðisaukaskatts á rafhleðslustöðvar við heimahús, umhverfisvænni hópbifreiðum og gagnvart bílaleigum, reiðhjólum og fleiri þáttum. Hann segir að næstu skref séu meðal annars að líta til annarra þátta en rafbíla.

„Þar er til skoðunar bæði metan og vetni meðal annars. Íblöndun á lífeldsneyti og þættir sem hafa ekki fengið eins mikla athygli og rafbílarnir. Rafbílarnir eru meira tilbúnir. Við erum að greina það, ætti eitthvað af fjármagninu að fara í það að styrkja við innviði þegar kemur að þessum þáttum, og við bíðum bara eftir þeim greiningum,“ segir Guðmundur Ingi.

 

150 kílóvatta hraðhleðslustöðvar verða á eftirfarandi stöðum:

Mosfellsbæ, Borgarnesi, Þingvöllum, Vegamótum á Snæfellsnesi, Ólafsvík, Stykkishólmi, Búðardal, Bjarkarlundi, Patreksfirði, Ísafirði, Hólmavík, Staðarskála, Blönduósi, Varmahlíð, Akureyri, Mývatnssveit, Egilsstöðum, Seyðisfirði, Djúpavogi, Höfn – Nesjahverfi, Freysnesi, Skaftafelli, Kirkjubæjarklaustri, Vík í Mýrdal, Hvolsvelli,
Hellu, Geysi, Selfossi, Keflavíkurflugvelli, Reykjanesbæ og Norðlingaholti.
Einnig verður sett upp 50 kílóvatta hleðslustöð á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal.