Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hraðbankar í miðbænum tæmdust um páskana

06.04.2015 - 20:35
Mynd: RÚV / RÚV
Hraðbankar í miðborg Reykjavíkur urðu flestir uppiskroppa með fé um páskana. Ferðamenn leituðu logandi ljósi að peningum og talsmenn bankanna segja að slík staða hafi aldrei komið upp áður.

Tómir hraðbankar strax á laugardagskvöld
Páskahelgin er löng og lengsta samfellda frí sem flest vinnandi fólk fær á árinu, fyrir utan sumarfrí. Bankar eru lokaðir í fimm daga samfleytt um páskana og því viðbúið að fleiri leiti á náðir hraðbankanna en venjulega. Strax á laugardagskvöldið var farið að bera á tómum hraðbönkum, þá var einn í Austurstræti til dæmis tómur.

Langflestir tómir á annan í páskum
Fréttastofan fékk svo ábendingar í morgun um að erfitt væri orðið að finna hraðbanka með pening. Eftir að hafa heimsótt flesta hraðbanka í miðborg Reykjavíkur, var niðurstaða athugunar fréttastofu sú að langflestir hraðbankar í Reykjavík, frá austurbæ og vestur í bæ, eru lokaðir og tómir.

Talsmenn bankanna vissu ekki um peningaleysið
Talsmenn stóru viðskiptabankanna höfðu ekki heyrt af þessu almenna peningaleysi þegar fréttastofa hafði samband við þá. Eftir að hafa kannað málið betur kom í ljós að vandinn var nokkuð útbreiddur í Reykjavík, þó síst hjá Íslandsbanka.

Ferðamenn, mánaðamót og fermingarveislur
Ástandið kom þeim öllum í opna skjöldu og þeim bar saman um að þetta vandamál hefði aldrei áður verið eins útbreitt. Helstu ástæðuna töldu þeir vera mikinn fjölda erlendra ferðamanna í miðborg Reykjavíkur sem og þá staðreynd að bankarnir voru aðeins opnir í einn dag eftir mánaðamót áður en páskafrí skall á með fimm daga lokun. Því hafi margir leitað á náðir hraðbankanna. Svo má ekki gleyma öllum fermingarveislunum þar sem algengt er að gefa peninga.

Varla lagað fyrr en á morgun
Fréttastofan hringdi á nokkur hótel og þar bar allt að sama brunni, útlendingar höfðu margir lent í stökustu vandræðum með að finna opna hraðbanka.

Talsmenn viðskiptabankanna töldu fremur ólíklegt að úr þessu yrði bætt í dag, frekar að fyllt yrði á bankana á morgun að loknu páskafríi.