Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hraðasektir fyrir tvær milljónir um helgina

Mynd með færslu
Kirkjubæjarklaustur. Mynd úr safni.  Mynd: Skaftárhreppur - Kirkjubæjarklaustur
Lögreglan á Suðurlandi innheimti hraðasektir við Vík og Kirkjubæjarklaustur fyrir samtals rúmlega 2,2 milljónir króna um síðustu helgi. Þessi upphæð miðast við þá sem greiddu á staðnum með korti. Ótaldir eru þeir sem ekki gátu greitt á strax og fá sendan greiðsluseðil.

Upphæðin úr posauppgjöri helgarinnar er í hærra lagi á þessu svæði, að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Suðurlandi. Það hafi þó gerst að svo margir hafi verið sektaðir fyrir hraðakstur á einni helgi. Lögreglan greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og segir Oddur það gert til að veita ökumönnum aðhald og hvetja þá til að aka á löglegum hraða. 

Þeir sem óku hraðast við Vík og Kirkjubæjarklaustur um helgina voru á tæplega 140 kílómetra hraða þar sem hámarkshraðinn er 90 kílómetrar. Sektin fyrir slíkt er 115.000 krónur. 

Í öllu umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi voru 74 kærðir fyrir hraðakstur í síðustu viku. Það sem af er ári er fjöldinn 1.217. Á Facebook-síðu embættisins segir að áfram verði fylgst grannt með ökuhraða og ástandi ökumanna í umferðinni með það að markmiði að draga úr hættu á umferðarslysum.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir