Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hótelherbergjum fjölgar um helming

29.01.2017 - 19:18
Mynd: RÚV / RÚV
Gert er ráð fyrir að hótelherbergjum í Reykjavík fjölgi um helming á næstu tveimur til fjórum árum. Tæplega 2.400 herbergi eru í byggingu eða í þróun í höfuðborginni.

Ferðamönnum sem koma hingað til lands hefur stöðugt farið fjölgandi undanfarin ár. Samhliða þeirri fjölgun hefur hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu einnig fjölgað. Og ekkert lát virðist vera á þeirri þróun. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru nú rétt tæplega 5.000 hótelherbergi í Reykjavík. Næstu tvö til fjögur ár er hins vegar búist við að þeim fjölgi um 2.400, eða um það bil um helming.

„Hótelherbergin eru aðeins á eftir fjölguninni. Þú ert miklu fljótari að bóka nýja flugvél eða nýjan legg,“ segir Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg. „Þannig að ferðamönnum fjölgar miklu hraðar en hótelherbergjum. Og við sjáum það að nýtingin á herbergjunum hefur verið að aukast ár frá ári. Þannig að við erum ekki að byggja herbergin jafnhratt og ferðamennirnir eru að koma. Þannig að ef það er ekkert byggt er kominn náttúrulegur stoppari á fjölgun ferðamanna á landinu,“ segir Óli Örn.

Mikil fjölgun

En hvar verða öll þessi hótel? Lítum á hótel sem annað hvort eru í þróun eða komin á framkvæmdastig.

Stærsta hótelið verður á Hlíðarenda, en þar er gert ráð fyrir að reisa hótel með 360 herbergjum.

Við Grensásveg 1 er svo gert ráð fyrir 350 herbergja hóteli.

Þá eru framkvæmdir hafnar við Marriot Edition Reykjavik hótelið við Hörpu. Þar verða 250 herbergi.

Framkvæmdir eru einnig hafnar við Icelandair Parliament hótelið sem verður í Landsímahúsinu við Austurvöll. Þar verða 160 herbergi.

Í gamla Sjónvarpshúsinu við Laugaveg 176 stendur til að opna hótel með 120 herbergjum, og jafnstórt hótel við Suðurlandsbraut 18. Þá eru framkvæmdir hafnar við gamla Íslandsbankahúsið í Lækjargötu, en þar verður hótel með 120 herbergjum.

Vitað er af 12 öðrum verkefnum sem annað hvort eru í þróun eða komin á framkvæmdastig í Reykjavík. Verði öll þessi hótel að veruleika fjölgar hótelherbergjum í Reykjavík um tæplega 2.400 herbergi, eða næstum helming. Þá eru ótalin rúmlega 300 herbergi sem eru í bígerð í Hafnarfirði og Kópavogi.

Standa af sér samdrátt

Margir segja að það sé nóg um hótel, sérstaklega í miðborginni, hverju svarið þið því?

„Menn hafa hóflegar áhyggjur af þessu. Þess vegna er búið að setja kvóta í Kvosina. Það verða ekki fleiri hótel byggð en þegar er búið að gefa leyfi fyrir. Það er verið að skoða að teygja það upp með Laugaveginum,“ segir Óli Örn.

En hafið þið einhverjar áhyggjur af því að þessi ferðamannabóla springi og þessi hús muni standa auð þegar fram líða stundir?

„Nei. Það sem við erum að horfa á með komandi vöxt er að vera opin fyrir því að hluti af honum eigi sér stað í hótelíbúðum sem gætu þá umbreyst í hótelíbúðir ef það kemur bakslag,“ segir Óli Örn.

„Þannig að við sjáum alveg fyrir okkur að við þurfum að hugsa um blönduna. Að það verða til ákveðin kjarnahótel sem verða hótel og þau munu standa af sér smá samdrátt. Það sem er mest á jaðrinum er heimagistingin og hún er þá fyrst til að detta út þegar það kemur samdráttur, sem er þá gott fyrir leigumarkaðinn.“