Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hótað lífláti vegna fréttar um orkupakkann

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Víðir Hauksson - RÚV
Ríkislögreglustjóri er að kanna líflátshótanir sem Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, bárust í tengslum við umfjöllun vefmiðils um þriðja orkupakkann.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu í dag.

Þar kemur fram að fjölmiðill sem heitir Fréttatíminn hafi í gær velt upp þeirri spurningu hvort Guðlaugur og eiginkona hans myndu hagnast um 625 milljónir á 50 árum á innleiðingu orkupakka þrjú. „Eins og áður segir gæti orkupakki 3, líklega skilað meira en 625 milljónum í vasa utanríkisráðherra og konu hans?,“ eins og það er orðað. 

Í umræðu um fréttina á samfélagsmiðlum hafi síðan verið að finna líflátshótanir í garð ráðherra. 

Fréttastofa náði ekki tali af Guðlaugi en í orðsendingu frá utanríkisráðuneytinu er haft eftir honum að ráðherrum hafi verið ráðlagt að taka líflátshótanir alvarlega. Hann sé ýmsu vanur en í þessu tilfelli sé augljóst hver ásetningurinn sé „með þessari svokölluðu fjölmiðlaumfjöllun.“ Þær hótanir sem honum hafi borist vegna fréttarinnar hafi þegar verið settar í farveg hjá embætti ríkislögreglustjóra.  Frekari upplýsingar fengust ekki hjá ráðuneytinu. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV