
Hosni Mubarak var fjórði forseti Egyptalands. Mubarak tók við embætti árið 1981 og hrökklaðist frá völdum í febrúar 2011 eftir mikil mótmæli í landinu. Þá stóð arabíska vorið, svokallaða, sem hæst og mótmælendur tóku meðal annars yfir Tahrir-torg í miðborg Kaíró. Mubarak var herforingi í egypska flughernum áður en hann varð forseti og naut mikillar vinsælda sem slíkur, ekki síst eftir Yom Kippur-stríðið við Ísrael 1973 þar sem hernum tókst að koma höggi á ísraelska herinn, sem hafði hernumið Sínaí-skagann í Sex daga stríðinu sex árum áður.
Þrátt fyrir vinsældir á árum áður var Mubarak umdeildur forseti. Spilling, efnahagsvandamál, kúgun og lögregluofbeldi einkenndi valdatíð hans lengst af. Eftir að hann hrökklaðist úr embætti mátti hann dúsa í fangelsi árum saman en var látinn laus 2017 eftir að hann var sýknaður af flestum öllum ákærum. Það kom mörgum Egyptum verulega á óvart og aftur þustu þúsundir út á götur til að mótmæla niðurstöðu dómstóla. Mubarak var 91 árs þegar hann lést á sjúkrahúsi í dag og hafði lengi glímt við veikindi.