„Hörmungar á hörmungar ofan“ í Ástralíu

05.01.2020 - 14:04
epa08103583 A firefighter works to contain a small bushfire, which closed the Princes Highway, near Ulladulla, Australia, 05 January 2020. According to media reports, at least 1,200 homes in Victoria and New South Wales have been destroyed by fires this season, at least 18 people have died, and more than 5.9 million hectares have been burnt.  EPA-EFE/DEAN LEWINS  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Tala látinna er komin upp í 24 vegna gróðureldanna sem loga í Ástralíu og eira engu. Fjölda er saknað Aðstæður til slökkvistarfs voru afar slæmar í gær þar sem hiti fór nálægt 40 stigum í miklu hvassviðri. Í dag, sunnudag, komu loks rigningardropar úr lofti en það vann lítið gegn eldunum. 

Í höfuðborginni Canberra voru loftgæði í dag þau minnstu af öllum borgum heims samkvæmt mælingum. Þar sem ástandið er einna verst mældist aðeins um 50 metra skyggni. Vont fór svo versnandi þegar eldarnir læstust í vatnsturn í bænum Cooma með þeim afleiðingum að næstum fimm milljónir lítra af vatni flæddi um göturnar, hrifsaði með sér bíla og fyllti heimili fólks af aur. „Fyrst eldar og svo flóð, þetta eru hörmungar á hörmungar ofan,“ sagði íbúi við fréttastofu AFP. 

Elísabet Englandsdrottning opinberaði áhyggjur sínar af stöðunni í dag og þakkaði þeim sjálfboðaliðum sem leggja líf sín í hættu fyrir samfélagið. 

Mestu fólksflutningar í sögu landsins 

Í gær kallaði forsætisráðherrann Scott Morrison til þrjú þúsund hermenn til þess að berjast við eldana, en það er umfangsmesta útkall ástralska hersins á síðari árum. Eftir að neyðarástandi var lýst yfir í Nýja-Suður-Wales fjölmargir verið fluttir af heimilum sínum. 

Umfangsmestu fólksflutningar í sögu landsins hafa farið fram síðustu daga, hátt í tvö hundruð þúsund hafa þurft að hafa sig á brott vegna eldanna. Nokkur hundruð af þeim fjögur þúsund sem urðu innlyksa á ströndinni nærri bænum i Mallacoota komust loks til hjálparmiðstöðvar. Þau voru sótt á herskipi eftir að eldarnir lokuðu öllum leiðum frá bænum. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi