Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hörmulegt að þurfa að segja góðu fólki upp

27.03.2020 - 15:20
Innlent · COVID-19 · Fíkn · heilbrigðismál · SÁÁ · Vogur
Mynd með færslu
 Mynd: LH - RÚV
Efnahagslægðin vegna kórónuveirunnar hefur komið höggi á rekstur SÁÁ, líkt og nær allra fyrirtækja og stofnana í landinu. Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir að staðan sé ekki góð og að bregðast hafi þurft hratt við. Allar leiðir hafi verið skoðaðar, þar á meðal að selja eignir, en að niðurstaðan hafi verið sú að segja átta starfsmönnum upp og lækka starfshlutfall allra annarra um 20 prósent.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, sagði starfi sínu lausu í gær. Hún sagði í samtali við fréttastofu að hún gæti ekki sætt sig við að teknar væru ákvarðanir um að segja upp lykilstarfsfólki án þess að haft sé um það samráð við yfirlækni meðferðarstöðvarinnar. Stjórnin hafi tekið ákvörðun um uppsagnir án þess að ræða við hana, eða aðra yfirmenn, um hvaða afleiðingar það gæti haft á starfsemina.

Arnþór segir að framkvæmdastjórnin hafi tekið ákvörðun um uppsagnir að vel athuguðu máli en í algjörri neyð. Fólk hafi eflaust misjafnar skoðanir á því. Það sé hörmulegt að þurfa að segja upp góðu starfsfólki en að ástæðurnar að baki séu málefnalegar, að hans mati. Það þurfi að tryggja áframhaldandi rekstur SÁÁ.

Óvissa varðandi álfasölu í maí

Meðal starfseininga hjá SÁÁ er sjúkrahúsið Vogur, eftirmeðferðarstöðin Vík og göngudeild. Hluti starfseminnar er fjármagnaður með þjónustusamningum við ríkið og hluti með fé sem SÁÁ aflar á ýmsan hátt, svo sem með sölu á Álfinum, eignaraðild að Íslandsspilum og með fjárframlögum frá styrktaraðilum. Arnþór segir ljóst að tekjurnar sem SÁÁ afli, til dæmis álfasalan, séu mikilli óvissu háðar. Álfarnir séu alltaf seldir í maí en það sé ekki vitað hvort sú sala geti farið fram núna, vegna veirufaraldursins. Þá sé búið að loka öllum spilakössum og styrktaraðilar haldi að sér höndum á þessum óvissutímum. 

Þurfa að skera niður um 150 milljónir á árinu

Arnþór segir að við aðstæður sem þessar hafi ekki verið annað í stöðunni en að ráðast í uppsagnir. Framkvæmdastjórnin hafi rætt þann möguleika að selja eignir til að eiga fyrir útgjöldum. SÁÁ þurfi að skera niður um 150 milljónir á árinu. Ríkið greiði fyrir 1.530 innlagnir á Vog á ári en að innlagnir séu þó 2.220 árlega og að samtökin greiði mismuninn með söfnunarfé. Veitt sé mun meiri þjónusta en ríkið greiði fyrir. Formaðurinn segir að leitað hafi verið til heilbrigðisráðuneytis eftir liðsinni næstu vikur en að enn hafi ekkert komið út úr beiðni. 

Jón H. B. Snorra­son, sak­sókn­ari hjá rík­is­sak­sókn­ara, sagði sig úr stjórn SÁÁ í morgun, að því er mbl.is greinir frá. Haft er eftir honum að hann hafi tekið þessa ákvörðun á sínum forsendum en vilji ekki tjá sig frekar um málið. 

 

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir