Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Horfir þú á sjónvarpið eða horfir það á þig?

Mynd: Glenn Carstens-Peters / Unsplash

Horfir þú á sjónvarpið eða horfir það á þig?

06.12.2019 - 11:12

Höfundar

Snjallsjónvörp safna upplýsingum um notendur sína og senda í mörgum tilfellum áfram til þriðja aðila. Sérfræðingur í tölvuöryggi segir að öryggi sé oft ábótavant á hinu svokallaða hlutaneti sem snjallsjónvörpin eru hluti af.

Meirihluti þeirra sjónvarpa sem framleidd eru í dag eru snjallsjónvörp. 68% bandarískra heimila eru með snjallsjónvörp eða tengja sjónvarpið netinu í gegnum utanáliggjandi snjall-myndlykla.

Sjónvarpið er því orðið þáttur í hinu sístækkandi neti internettengdra snjalltækja í lífi fólks, því sem hefur verið kallað hlutanetið eða Internet of Things (IoT). Í dag inniheldur netið allt frá sjónvörpum til ísskápa, frá hátölurum til ljósapera og armbandsúra. „Ég held að venjulegt heimili sé með um sex tæki á hverja manneskju,“ segir Theodór Ragnar Gíslason, tæknistjóri og einn stofnenda tölvuöryggisfyrirtækisins Syndis í viðtali í Lestinni á Rás 1. „Það er gott að horfa á flest þessi nettengdu tæki sem tölvur. Þau eru með nánast alla eiginleika þeirra tölva sem við vinnum á, þarna eru hljóðnemar, hátalarar og fullkomið stýrikerfi. En það hvernig þetta stýrikerfi er sett upp er algjörlega háð framleiðandanum.“

Flest þessara tækja safna ýmis konar upplýsingum um notendur sína. Yfirlýst markmið er að nota upplýsingar um notkunina til að bæta tækin en upplýsingasöfnunin er hins vegar orðin að mikilvægum hluta í tekjumódeli tæknifyrirtækja. Þau safna gríðarlegu magni upplýsinga um hvern einstakling, greina þær og spá hvernig hann muni bregðast við ákveðnu áreiti, og selja svo auglýsendum aðgang að athygli hans. „Við erum partur af þessari virðiskeðju, en það er óþægilegt ef við erum ekki meðvituð um það,“ segir Theodór.

Nýlega hafa rannsakendur við Northeastern University og Imperial College í London komist að því að fjöldi snjallsjónvarpa, meðal annars frá Samsung og LG, auk utanáliggjandi snjalltækja frá Roku og Amazon, sendi upplýsingar um notendur til þriðja aðila, til að mynda tæknirisans Facebook og Netflix. Jafnvel þótt notendur hefðu engin tengsl við fyrirtækin sem fengu upplýsingarnar.

Þessari mikli upplýsingasöfnun fylgir einnig mikil ógn við öryggi. Theódór nefnir til að mynda ódýr snjallúr fyrir börn. Syndis fann út að með tiltölulega einföldum hætti væri hægt að fylgjast með þeim sem báru úrin, í rauntíma.

Theodór segir mikilvægt að kynna sér framleiðendur tækjanna, hvernig þeir meðhöndla upplýsingarnar og hvernig öryggismálum er háttað.  „Við vitum að framleiðendur hafa gert alveg fáránleg mistök. Upptökur hafa verið sendar og álíka. Mistök geta orðið í hugbúnaðarframleiðslu, allur hugbúnaður getur innihaldið villur,“ segir hann. „En það er líka hægt að hakka sig inn á sjónvörp og önnur tæki á hlutanetinu. Og ég myndi segja að á hlutanetinu, sem er alveg ótrúlegur fjöldi af mismunandi tækjum, sé öryggið alveg ömurlegt.“

Hann segir að fólk þurfti að vera meðvitað. Hins vegar þurfi að gera margt til þess að öryggi tækja á hlutanetinu verði aukið. Fyrst þurfi að uppfræða tæknifólk um hvernig það býr til öruggari vörur og þróa öruggari hugbúnað. Þá þurfi að víkka út evrópsk persónuverndarlög og önnur netöryggislög svo þau nái út fyrir álfuna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Theodór Ragnar Gíslason

Tengdar fréttir

Innlent

Mannlegi þátturinn mikilvægur í netöryggi

Innlent

Alvarlegur öryggisgalli í krakkasnjallúri

Tækni og vísindi

Hægt að njósna um ferðir barna með snjallúrum