Hörður sakar SI um ítrekaðar rangfærslur

22.02.2020 - 08:53
Hörður Arnarson.
 Mynd: Landsvirkjun
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og fyrrverandi varaformaður Samtaka iðnaðarins, gagnrýnir samtökin harðlega í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er umfjöllun Samtaka iðnaðarins undanfarið um upprunaábyrgðir.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur meðal annars sagt í fréttum RÚV að hann vilji að Ísland fari úr viðskiptakerfi með upprunaábyrgðir raforku. Þrátt fyrir að tekjur af sölu þeirra nemi ríflega milljarði króna á ári sé skaðinn fyrir ímynd Íslands umtalsvert meiri.

Upprunaábyrgðir eru vottorð um hreina raforkuframleiðslu. Í fréttaskýringaþættinum Kveik kom fram að íslensk raforkufyrirtæki hafi á undanförnum árum selt þessar ábyrgðir til Evrópu fyrir hundruð milljóna króna á ári. Á móti þurfi að breyta raforkubókhaldi þannig að á pappírum líti svo út fyrir að raforka á Íslandi sé að stórum hluta frá jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Segir Samtök iðnaðarins vera i áróðursherferð

Hörður segir í grein sinni að Samtök iðnaðarins hafi um nokkurt skeið staðið „í áróðursherferð gegn orkufyrirtækjum á sama tíma og Rio Tinto, aðildarfyrirtæki þeirra, reynir að fá lækkað raforkuverð.“

Hörður segir kerfi um upprunaábyrgðir raforku og losunarheimildir vegna mengunar vera tvö aðskilin kerfi. Annað, svokallað ETS-losunarkerfi, sé íþyngjandi óvalkvætt kerfi fyrir fyrirtæki sem valda mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Hitt kerfið, upprunaábyrgðakerfið, sé valkvætt fyrir notendur raforku sem vilji láta gott af sér leiða og styðja við endurnýjanlega orkuvinnslu.

„Málflutningur samtakanna í þessu máli einkennist af ítrekuðum rangfærslum,“ segir Hörður og spyr samtökin fimm spurninga. Hann spyr meðal annars hvort Samtök iðnaðarins þekki einhver dæmi um kolorku- eða kjarnorkuver í Evrópu sem hafi getað nýtt sér íslenskar upprunaábyrgðir til þess að bæta ímynd sína. Hann spyr líka hvort samtökin geti bent á einhvern skaða sem hafi orðið á ímynd Íslands vegna sölu upprunaábyrgða.

Samtökin séu að beita sér fyrir lægra orkuverði fyrir stóriðju

Síðasta spurning Harðar vekur ekki hvað síst athygli. Hörður segir að innan Samtaka iðnaðarins séu 1.400 fyrirtæki og aðildarfélög. Yfir 99 prósent þeirra fái í dag upprunavottaða endurnýjanlega orku frá sínum raforkusala. „Er það með samþykki meirihluta aðildarfyrirtækjanna að samtökin beiti sér fyrir því að íslenska þjóðin gefi nokkrum alþjóðlegum stóriðjufyrirtækjum 20-30 milljarða á næstu tíu árum?“

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi