Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hoppað milli tveggja heima

Mynd: Garpur / Garpur

Hoppað milli tveggja heima

02.03.2020 - 19:50

Höfundar

Verkið Er ég mamma mín? kallast með skýrum hætti á við samfélagsumræðuna og er gamansamt en um leið persónulegt innlegg í hana, að mati Karls Ágústs Þorbergssonar gagnrýnanda.

Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:

Sýningin Er ég mamma mín? Í uppsetningu Kvenfélagsins Garps fjallar fjallar um samband mæðgna og þær ólíku samfélagslegu aðstæður sem þær takast á við. Verkið skírskotar með beinum hætti inn í umræðu samtímans um reynsluheim kvenna, kvenfrelsi og kúgun feðraveldisins og tilfinningaleg áföll sem yfirfærast milli kynslóða. Þrátt fyrir flókin og erfið umfjöllunarefni er verkið mjög gamansamt og farsakennt á köflum þó svo að dramatíkin sé aldrei langt undan.  

Í verkinu birtast okkur tveir heimar, annar kyrfilega staðsettur í fortíðinni og hinn í hversdegi samtímans. Heimur fortíðarinnar, nánar tiltekið árið 1979, er heimur húsbóndans þar sem vald hans er algjört og óskorað og staða konunnar er innan veggja heimilisins, að elda matinn, taka til og ala upp barnið. Brestir koma hins vegar í þennan veruleika þegar stillta húsmóðirin fer að pota í stoðir feðraveldisins og krefjast aukinni réttinda og þátttöku í samfélaginu á sínum forsendum, með sinni rödd. Eftir því sem réttindabaráttan færist í aukana forherðist húsbóndinn og á endanum springur hjónabandið og hann yfirgefur heimilið og skilur móður og barn, Elínu, eftir í skuldasúpu. Í heimi samtímans hefur Elín vaxið úr grasi og er nú orðið að sérfræðilækni með sitt eigið heimili, eiginmann og barn. Ástandið virðist hins vegar vera allt annað og öllu manneskjulegra, eiginmaðurinn kominn í bleikan stuttermabol, er hjálpsamur og stuðningsríkur og tekur virkan þátt í heimilisstarfinu og uppeldinu. Nú er það húsmóðirin sem er að drukkna úr álagi og vinnu og er á sama tíma að reyna að hugsa um aldraða móður sína. Vofa föðurins svífur þó enn yfir vötnum og heldur heiminum í eins konar spennitreyju.  

Verkið er því í raun saga Elínar og hvernig hún tekst á við áföll fortíðarinnar og samband sitt við móður sína. Þó svo að aðstæðurnar breytast mikið á milli heimanna tveggja, sérstaklega með tilliti til réttindabaráttu kynjanna, þá er ekki búið að takast á við áföllin í kjölfar skilnaðarins og upplausn heimilins. Þetta eru megin þræðir þeirrar samfélagspólitíkur sem birtist í verkinu; vissulega hefur margt áunnist, heimurinn er í raun gjörbreyttur frá því sem var, og það á góðan hátt. Gömlu góðu dagarnir voru hreinlega alls ekki góðir að svo mörgu leyti. Hins vegar þarf einnig að eiga sér stað uppgjör á þeim tilfinningalegu áföllum sem dundu yfir til þess að einhver leið sé á því að persónurnar nái sátt, bæði sín á milli og við ákvarðanir sínar. Þessi tvö megin þemu verksins kallast með beinum hætti á við umræðu samtímans, til dæmis með tilliti til  kvenfrelsisbyltinga síðustu ára og einnig áfallasögu kvenna, og veita áhorfendum góða innsýn inn í samhengi þeirrar umræðu.  

Þó svo að verkið sé innblásið af eigin reynslu höfundar og leikstjóra sýningarinnar, Maríu Reyndal, þá er ekki þar með sagt að hér sé á ferð raunsönn birtingarmynd veruleikans. Verkið nýtir sér að töluverðu leyti klisjur og ímyndir sem persónugervingu fyrir tíðaranda eða hugmyndafræði. Það er til að mynda ekki farið mikið á dýptina í persónusköpun nema þá í tilfelli mæðgnanna, þar er lang mesta kjötið á beinunum og augljóst að fókusinn liggur þar. Karlarnir eru frekar tvíviðir og grunnir en það er líka allt í lagi, markmiðið er ekki að kafa á dýptina þar. Fókusinn er á persónulega líðan og upplifun kvennanna og því fær það réttilega mesta plássið.  

Formið sem notað er til að miðla þessari sögu kallast að ákveðnu leyti á við notkun á klisjum. Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson leika bæði pörin, þ.e. í fortíð og nútíð, og hoppa auðveldlega á milli hlutverka. Hlutverkin eru þannig undistrikuð til dæmis með einföldum búningaskiptum og með erkitýpískum persónueinkennum. Þessi erkitýpisku persónueinkenni ýta undir staðalímyndir en þær eru einmitt notaðar á nokkuð markvissan hátt til að birta áhorfendum innsýn inn í ákveðið samfélaglegt og um leið persónulegt hugarástand.  

Þessar erkitýpur kallast einnig á við form sýningarinnar í heild sinni, þ.e. hvernig leikið á á gamansama og jafnvel farsakennda strengi en um leið er farið nokkuð djúpt í persónlegri dramatík. Þessi afstaða endurspeglast einna helst í aldraðri móðurinni í nútímanum, leikna af Kristbjörgu Kjeld, sem barist hefur alla ævi fyrir réttindum sínum og berst enn. Þó að þessi barátta verða á köflu trúðsleg þá er aldrei langt í þær erfiðu og flóknu tilfinningar og áföll sem liggja þar að baki. Sú skýra notkun á forminu sem lagt er upp með gerir það einnig að verkum að áhorfendur átta sig mjög fljótlega með hvað aðferð sagan er sögð, hvar klisjurnar eru ýktar til að kalla fram skýr viðbrögð og draga upp skýrar línur milli fortíðar og nútíðar. Með þessum hætti er áherslan lögð á þá samfélagslegu speglun sem finna má í verkinu. 

Verkið Er ég mamma mín? kallast með skýrum hætti á við samfélagsumræðuna og fellur vel að þeirri áherslu sem má finna í henni þar sem sögur kvenna eru dregnar upp á yfirborðið. Þannig er verkið gamansamt en um leið persónulegt innlegg í þá umræðu og ljóst að mikilvægi þess er mikið. Sögur, upplifanir og sjónarhorn kvenna þurfa að koma fram og mættu fá mun meira pláss en þau hafa gert hingað til.

Tengdar fréttir

Leiklist

Erum við ekki öll mamma okkar?

Leiklist

Vel heppnuð sýning sem þó mætti rista dýpra