Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hópar leikskólabarna þurfa að vera heima

31.01.2020 - 15:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verkfall félagsmanna í Eflingu mun hafa veruleg áhrif á starfsemi leikskóla Reykjavíkurborgar. Ljóst er að hópar barna munu þurfa að verða heima þá daga sem verkfallið stendur yfir.

Þetta kemur fram í bréfi sem skóla- og frístundasvið borgarinnar hefur sent foreldrum leikskólabarna.

Starfsfólk Eflingar í skólum á vegum Reykjavíkurborgar er um eitt þúsund talsins í 63 leikskólum.

Í bréfinu segir að komi til verkfalls muni það hafa veruleg áhrif á starfsemi leikskóla borgarinnar, jafnvel þótt aðrir starfsmenn en Eflingar muni starfa á meðan verkfalli stendur.

Verkfallið hefur mismikil áhrif á einstaka leikskóla og kann það að hafa áhrif á opnunartíma einhverra þeirra, en í bréfinu segir að ljóst sé að hópar barna í öllum leikskólum verði heima þá daga eða dagparta sem verkfallið stendur yfir.

Verkfall hefur verið boðað á eftirtöldum dögum:-

 • Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.
 • Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
 • Þriðjudagur 11. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.
 • Miðvikudagur 12. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
 • Fimmtudagur 13. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
 • Mánudagur 17. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og ótímabundið eftir það.

Leikskólastjórar munu veita nánari upplýsingar um breytingar á starfsemi viðkomandi leikskóla og að hvaða leyti unnt verður að taka á móti börnum.

Eru foreldrar hvattir til  að  fylgjast  vel  með  fréttum  í  fjölmiðlum, á  heimasíðu  Reykjavíkurborgar og hjá leikskólastjórum viðkomandi leikskóla.

Á vef Reykjavíkur kemur fram að matarþjónusta verði með ólíkum hætti milli leikskóla. Munu foreldrar ekki greiða gjöld fyrir þá daga sem börn geta ekki sótt leikskóla vegna verkfalls eða þjónustuskerðingar, svo sem matarþjónustu.

Verkföllin munu hafa óveruleg áhrif á grunnskóla Reykjavíkur og þjónusta frístundaheimila verður óbreytt.

Sótt um undanþágu í velferðarþjónustu

Velferðarsvið borgarinnar sótti um undanþágu fyrir starfsfólk Eflingar sem sinnir viðkvæmustu þjónustunni er snýr að umönnun fatlaðs fólks, aldraðra á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum, barna og þeirra sem þurfa á neyðarþjónustu að halda í gistiskýlum.

Sótt var um undanþágu fyrir um 245 stöðugildi af um 450 hjá velferðarsviði á eftirfarandi starfsstöðum. Verkalýðsfélagið Efling hefur samþykkt undanþágubeiðnir vegna eftirfarandi starfsstaða.

 • Tvö hjúkrunarheimili Droplaugarstaðir (ásamt Foldabæ) og Seljahlíð
 • 13 starfsstaðir þar sem rekið er húsnæði fyrir fatlað fólk (íbúðakjarnar og herbergjasambýli)
 • Sex starfsstaðir sem sinna málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir
 • Nauðsynleg öryggisþjónusta á heimilum
 • Þjónustuíbúðir á fimm stöðum
 • Framleiðslueldhús Lindargötu sem sér um að elda og pakka heimsendum mat.
 • Vistheimilið Mánaberg

Mun verkfallið til að mynda hafa þau áhrif á velferðarþjónustu borgarinnar að ekki verður boðið upp á mat og kaffiveitingar í níu félagsmiðstöðvum fyrir aldraða auk þess sem heimaþjónusta á borð við þrif frestast á verkfallsdögum.

Dagdvöl fyrir einstaklinga sem búa í heimahúsum sem rekin hefur verið í Þorraseli mun loka en þar eru að jafnaði 40 einstaklingar sem njóta þjónustunnar.

Þá mun ekki verða hádegismatur í boði fyrir fatlað fólk sem starfar og dvelur í Iðjubergi og Gylfaflöt.

Tafir á sorphirðu og snjóhreinsun fellur niður

Á boðuðum verkfallsdögum mun sorphirða frestast. Þá verður hreinsun í kringum grenndarstöðvar ekki sinnt auk ýmissar umhirðu í borgarlandinu. 

Öryggis- og bilanavakt borgarlandsins fellur niður.

Snjóhreinsun og hálkuvarnir á aðskildum hjólaleiðum og stofnanalóðum, til dæmis við leik og grunnskóla fellur enn fremur niður.

Félagsmenn gangi ekki í störf þeirra sem eru í verkfalli

Kennarasamband Íslands og aðildarfélög þess, þar með talið Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem deiluaðilar eru hvattir til þess að reyna til þrautar að ná samningum.

Komi til verkfalla er því beint til félagsmanna að ganga ekki í störf þeirra sem eru í verkfalli.