Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Holuhraun skal heita Holuhraun

15.12.2015 - 12:01
Mynd: Ómar Ragnarsson
 Mynd: Ómar Ragnarsson
Nýja hraunið sem myndaðist í eldgosinu í Holuhrauni í fyrra skal heita Holuhraun. Þetta var ákveðið á sveitarstjórnarfundi í Skútustaðahreppi í morgun. Samkvæmt nýjum lögum um örnefni sem sett voru í mars síðastliðnum bera sveitarfélög ábyrgð á að nefna ný náttúrufyrirbæri í samráði við Örnefnanefnd.

Fjórar tillögur að nafni
Í haust skipaði sveitarstjórnin fimm manna nefnd um nafngiftina. Í henni sátu tveir fulltrúar Skútustaðahrepps, ásamt fulltrúum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs og nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar. Nefndin sendi inn fjórar tillögur að nafni á hraunið inn til Örnefnanefndar. Það voru, auk Holuhrauns, nöfnin Urðarbruni, Nornahraun og Flæðahraun. Örnefnanefnd veitti umsagnir um nöfnin og mælti með því að hraunið yrði kallað Holuhraun en gegn því að það yrði kallað Nornahraun. Nefndin gerði ekki athugasemd við nöfnin Urðarbruni og Flæðahraun.

Sveitarstjórn greiddi atkvæði um nöfnin
Á sveitarstjórnarfundi í Skútustaðahreppi í morgun voru greidd atkvæði um nafngiftina. Holuhraun hlaut tvö atkvæði, Urðarbruni eitt og Nornahraun eitt. Því var ákveðið að hraunið skyldi heita Holuhraun.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV