Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Holuhraun mengaði meira en Evrópusambandið

23.03.2015 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Öll mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs í löndum Evrópusambandsins var aðeins fjórðungur af því sem kom úr Holuhrauni. Gasmengun af völdum eldgossins í Holuhrauni var fleiri klukkustundir yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík en á Reyðarfirði.

Málþing um áhrif mengunar frá eldgosinu í Holurhrauni var haldið á Hótel Sögu í dag á vegum tveggja ráðuneyta, Almannavarna og Bændasamtakanna.

„Það hafa losnað 20 til 60 þúsund tonn á dag af brennisteinsdíoxíði frá Holuhrauni. Til samanburðar þá losar álverið á Reyðarfirði 16 tonn. Við þurfum eiginlega að bera þetta saman við Evrópusambandið sem er að losa 14 þúsund tonn á dag,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun. Þá sé allt talið með. „Allur iðnaður, allar samgöngur, allar verksmiðjur og allt saman. Þannig að fjórum sinnum Evrópusambandið var að losna í Holuhrauni um það bil.“

Mesta einstaka mælingin mældist á Höfn í Hornafirði 21 þúsund míkrógrömm. Það var mælt á handmæli sem ekki er eins nákvæmur og sjálfvirkur mælir. Mesta mengun á sjálfvirkan mæli var 5.600 míkrógrömm í Reykjahlíð. Lengsta samfellda mælingin var á Akureyri 30. október. En fjarlægð frá gosstöðvum þýðir ekki endilega minni mengun. „Það sem var áhugavert að sjá að ef maður reiknaði klukkutíma yfir heilsuverndarmörkum að þá voru þeir fleiri í Reykjavík heldur en á Reyðarfirði.“

Mengun var 59 klukkustundir yfir mörkum í Reykjavík en 49 á Reyðarfirði. Mengunartopparnir voru hærri á Reyðarfirði en þeir voru strjálari. Mengun var meira og minna í Reykjavík allan nóvember. Skýringin er veður og vindar.

Enn streymir gas frá hrauninu og viku eftir að gosinu lauk mældist lífshættuleg gasmengun inni í gígnum sjálfum. Á vegum Veðurstofunnar er verið að þétta mælana í Holuhrauni í dag. „Við erum að færa vöktun úr byggð við Holuhraun til þess að geta hleypt ferðamönnum nær með þokkalegu öryggi,“ segir Þorsteinn. 

Enn er eftir að lesa úr ýmsum mælingum til dæmis á sýnum af brennisteinssýru sem vart varð vegna gossins.  

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV