Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Holtavörðuheiði lokuð og snjóflóðahætta á Vestfjörðum

11.01.2020 - 08:20
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Í dag er spáð suðvestan 15-23 metrum á sekúndu. Frost verður á bilinu 0-8 stig. Holtavörðuheiði er lokuð vegna flutningabíls sem liggur þvert yfir veginn. Þá eru vegir á Vestfjörðum lokaðir vegna snjóflóðahættu.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni gengur vel að losa flutningabílinn. Hins vegar er farið að hvessa allverulega á heiðinni og verður hún því lokuð eitthvað áfram en gera má ráð fyrir að hún verði opnuð upp úr hádegi. Hjáleið er um Laxárdalsheiði og Bröttubrekku. Fróðarárheiði er lokuð og verður líklega ekki opnuð í dag.

Gul viðvörun er í gildi um mestallt land en það dregur úr vindi þegar líður á daginn. Úrkoma verður í einhverjum landshlutum en þurrt á austanverðu landinu. Á morgun verður rólegra veður en spáð er úrkomu í flestum landshlutum og seint á mánudag er von á austanstormi með snjókomu.

Gemlufallsheiði er ófær og beðið er eftir upplýsingum um snjóflóðahættu en hún verður metin á milli klukkan 11 og 12. Flateyrarvegur, Suðureyrarvegur og vegurinn um Súðavíkurhlíð eru einnig lokaðir vegna snjófljóðahættu. Þá er varað við snjóflóðahættu í Eyrarhlíð og Steingrímsfjarðarheiði er einnig lokuð. Það styttist þó í að mokstur hefjist bæði á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði en enn er óvíst með opnun.

Færð er að skána á Norðurlandi og búast má við fínasta færi þar eftir hádegi í dag. Það er þó mikil hálka, og jafnvel flughált, á vegum í flestum landshlutum og ástæða til að fara með gát. Upplýsingar um færð á vegum eru uppfærðar á vef Vegagerðarinnar um leið og fréttir berast. 

Fréttin var uppfærð kl. 11:50.

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV