Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hollywood lét fjarlægja stjörnu Björgvins úr gangstétt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hollywood lét fjarlægja stjörnu Björgvins úr gangstétt

06.12.2019 - 08:59

Höfundar

Stjarna Björgvins Halldórssonar í gangstéttinni fyrir framan Bæjarbíó í Hafnarfirði hefur verið fjarlægð því viðskiptaráð Hollywood í Los Angeles kvartaði undan því að þarna væri verið að nota höfundaréttarvarða stjörnu í gangstétt.

Björgvin Halldórsson var fyrsti tónlistarmaðurinn til þess að fá þann heiður að nafn hans væri grafið í gangstéttina fyrir framan Bæjarbíó í Hafnarfirði. Stjarnan var afhjúpuð við athöfn í júlí. Hugmyndin var að heiðra íslenska tónlistarmenn með sama hætti og skærustu Hollywood-stjörnur eru heiðraðar á Frægðarbrautinni, The Walk of Fame, í Hollywood.

Viðskiptaráðið í Hollywood komst á snoðir um þetta og kvartaði við forseta bæjarráðs Hafnarfjarðar undan ólögmætri notkun á Hollywood-stjörnunni í gangstéttinni. Sýnt þótti að þarna væri beinlínis verið að herma eftir þeirri hefð sem skapast hefur í Hollywood. Það væri ólögmætt og þess vegna var óskað eftir því að stjarnan yrði fjarlægð án tafar.

Fjallað var um málið á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í gær og bréfasamskipti forseta bæjarstjórnarinnar og lögmanns viðskiptaráðs Hollywood lögð fram. Í svarbréfi bæjarráðsins segir að það ætli ekki að nota vernduð vörumerki og höfundavarin tákn. Stjarna Björgvins hefur þess vegna verið fjarlægð af gangstéttinni í Hafnarfirði.

Bæjarráðið bendir þó á að jafnvel þó Hollywood-stjarnan sé höfundaréttarvarin í Bandaríkjunum sé ekki þar með sagt að sá réttur verði staðfestur í íslenskum eða evrópskum rétti. Engin réttarfordæmi eða bein lagastoð eru fyrir hendi til þess að staðfesta það. Samt sem áður viðurkennir Bæjarráð Hafnarfjarðar höfundarréttinn og heitir því að tengja ekki fleiri tákn við Frægðarbrautina.