Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Höfundur orðs ársins ósáttur við skýringu

Mynd með færslu
 Mynd: Páll Stefánsson - fb

Höfundur orðs ársins ósáttur við skýringu

05.01.2018 - 11:50

Höfundar

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, sem átti orð ársins 2017 samkvæmt netkosningu á vef RÚV, er ánægð með valið en ósátt við skýringu sem fylgdi orðinu. Líflegar umræður hafa farið fram á Facebook-síðu Hildar en meðal þeirra sem blanda sér í þær er sjónvarpsmaðurinn Sindri Sindrason, maðurinn sem Hildur sagði vera „epalhomma“.

RÚV, Stofnun Árna Magnússonar og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands, hafa undanfarin þrjú ár staðið fyrir kosningu um orð ársins. Fössari varð fyrst fyrir valinu, svo hrútskýring og í gær var orðið „epalhommi“ útnefnt orð ársins.

Hér má lesa nánar um orðið og hvernig það kom til en í skýringu er það sagt hafa verið sett fram í niðrandi merkingu. Höfundurinn, Hildur Lilliendahl, hefði kallað sjónvarpsmanninn Sindra Sindrason kúgaðan, hvítan, ófatlaðan epalhomma eftir viðtal sem hann tók við formann Samtaka um líkamsvirðingu í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2. 

Daginn eftir birtist svo auglýsing frá Epal í dagblöðum með sex þekktum hommum í hönnunarversluninni sem er sögð hafa snúið hugtakinu upp í jákvæða merkinu. Epalhommi sé í nútímamálsorðabók sagt merkja „samkynhneigður karlmaður sem hefur áhuga á vandaðri hönnun.“

Hildur segist á Facebook-síðu sinni vera ánægð með valið á orðinu en rökstuðningurinn sé vondur. „Epalhommi var ekki sett fram í niðrandi merkingu heldur til að lýsa ákveðinni týpu af homma. Hommi er nefnilega ekki niðrandi orð þvert á það sem sum virðast halda,“ skrifar Hildur á Facebook.

Fjörugar umræður hafa skapast um málið og sjónvarpsmaðurinn Sindri er einn þeirra sem blandar sér í þær. „Epalhommi er bara fyndið og skemmtilegt orð :))) og ég held að flestir séu sammála. Mér finnst fólk stundum vera aðeins of viðkvæmt fyrir beittum húmor !“

Reynir Þór Eggertsson, Eurovision-sérfræðingur, segir epalhomma ágætis orð. Upphaflega notkunin hafi verið uppnefni „til þess eins fallið að draga úr mikilvægi þess sem Sindri hafði að segja.“ Reynir segist vita að ekkert hommahatur hafi legið í orðum Hildar á sínum tíma en það hafi samt verið ákveðinn tónn sem hægt væri að túlka sem svo að sumir hommar ættu bara að hafa sig hæga. „Og þú verður líka að þola að upplifun mín og margra annarra homma af þessu orði þínu var sú sem ég er að reyna að útskýra,“ skrifar Reynir.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem orðinu Epal er skeytt við annað orð. Fyrir rúmum fimm árum fjallaði DV  um fjárhag Álfheiðar Ingadóttur, þáverandi þingmanns VG, og eiginmanns hennar. Samkvæmt úttektinni áttu þau miklar eignir og það fylgdi sögunni að þau væru sögð vera svokallaðir „epalkommar“.  

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

Epalhommi er orð ársins 2017

Menningarefni

Orð ársins 2016: Hrútskýring

Íslenskt mál

Fössari orð ársins 2015