Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Höfugt draumflæði

Mynd með færslu
 Mynd: Timothy Lambrecq - White Sun Recordings

Höfugt draumflæði

20.03.2020 - 11:09

Höfundar

New Dreams er önnur sólóplata Jófríðar Ákadóttur sem kallar sig JFDR. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Fyrsta plata Jófríðar, Brazil, kom út 2017. Jófríður er, þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur, eldri en tvævetur í bransanum. Hún var fjórtán ára þegar hún tók þátt í Músíktilraunum ásamt systur sinni og vinkonum árið 2009 og vöktu þær verðskuldaða athygli. Jófríður var sérstaklega ákveðin og örugg og ég var ekki hissa þegar ég sá hana fara lengra með list sína.

New Dreams var meðal annars tekin upp í New York og á henni er Jófríður með alla þræði í hendi sér. Hún stýrði upptökum til dæmis sjálf. Ýmsir hljóðfæraleikarar og aðstoðarmenn og -konur koma við sögu, til dæmis Gyða Valtýsdóttir, Josh Wilkinson, Shahzad Ismaily, Daníel Friðrik Böðvarsson, Albert Finnbogason og Nico Muhly.

Að einhverju leyti er þetta framhald af Brazil, að því leytinu til að hljóðheimurinn er auðþekkjanlegur. Við erum enn í þessu draumkennda, umlykjandi flæði sem Jófríður magnar upp með tiltölulegri hægð. Fyrir mig, sem poppfræðing, er líka athyglisvert að finna og heyra á hverju hún byggir. Hér erum við með íslenskan tónlistarmann af yngri kynslóð sem sækir í brunn samlanda sinna sem á undan fóru. Björk, Sigur Rós, múm. Alla þessa meistara má greina í list Jófríðar. Hún sagði mér einu sinni, glettin, að íslenskar tónlistarkonur gætu ekki opnað munninn án þess að vera líkt við Björk.

Platan hefst á laginu Care for you, söngröddin hvíslandi og næm og þessi handanheimsára yfir allri framvindu. Platan er þar allan tímann, líður áfram á milli endalauss bils á milli svefns og vöku. Mjúkir raftaktar leiða okkur inn í „Taking a part of me“ og unnið er með söngröddina, hún er lækkuð svo hún minnir á karlmannsrödd en einnig tvöfölduð, þannig að Jófríður syngur með sjálfri sér. Lög eins og Think to fast kalla fram Asíu, jafnvel David Sylvian og Jófríður nær í raun mesta fluginu í lágstemmdustu smíðunum. Dive in fer nærri Talk Talk og því sem Sylvian var að gera á Brilliant Trees, titillaginu sérstaklega, og Secrets of the Beehive. Söngröddin er einkar tilfinningaþrungin í þessum lögum og eins líka í Falls (no wonder).

New Dreams er stöndugt verk, kemur sannarlega ekki úr engu eins og ég hef rakið en framkvæmdin er slík að rödd listakonunnar tónar sterkt yfir verkinu og gefur henni ósvikinn, frumlegan blæ.