Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Höfðu pening af pilti með mynd af vannærðu barni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir miðaldra menn eru grunaðir um að hafa þvingað pening út úr unglingspilt í Laugarneshverfinu og reynt að fá hann með sér í hraðbanka til að gefa sér meiri pening. Mennirnir sýndu piltinum mynd af vannærðu barni sem þeir sögðu að þyrfti á aðgerð að halda og að þá vantaði pening til að bjarga lífi þess.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við fréttastofu að lögreglunni hafi málið á sínu borði. 

Hann segir að málið verði skoðað eftir helgi en þetta sé í fyrsta skipti sem lögreglan fái tilkynningu um tilraun til að betla pening með þessum hætti. 

Móðir piltsins varaði aðra íbúa í Laugarneshverfinu við mönnunum og segir þá hafa verið býsna ágenga við son sinn.

Þeir hafi séð að hann væri með debetkort og í framhaldinu gengið mjög hart fram til að fá hann með sér í hraðbanka til að taka út meiri pening. Drengnum tókst að komast undan og heim til sín.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV