Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Höfðu ætlað að fjarlægja grjót skömmu fyrir banaslys

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Talið er að ökumaður sendibíls, sem lést eftir að bíll hans rann út af veginum í Hestfirði og lenti á stóru grjóti, hafi sofnað undir stýri. Vegagerðin hafði gert ráðstafanir til að fjarlægja grjótið skömmu fyrir slysið.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Slysið varð í júní fyrir tveimur árum. Tveir voru í bílnum og var farþeginn fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann. Ökumaðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að ökumaðurinn hafi misst stjórn á bílnum þannig að hún fór út af Djúpvegi í Hestfirði. För eftir bílinn hafi sýnt að bílnum var ekið yfir á öfugan vegarhelming og út af veginum. Í vatnsrás rétt við veginn hafi verið  stórt grjót sem nýlega hafði fallið úr fjallinu og lenti vinstra framhorn bílsins á grjótinu sem var sex tonn að þyngd.

Nefndin beinir því til Vegagerðarinnar að skoða hvort ekki sé hægt að takmarka frekar þá hættu sem stafi af reglulegu grjóthruni úr hlíðinni fyrir ofan veginn. Grjótið sem bíllinn lenti á hafi verið innan öryggissvæðis vegarins og mikilvægt sé að hættur í nánasta umhverfi vega séu fjarlægðar. 

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að Vegagerðin láti hreinsa vatnsrásina á hverju ári en verkið hefði tafist vegna þess hversu votviðrasamt hafði verið.  Þá segir jafnframt að grjótið sem bíllinn lenti á hafði nýlega fallið og að gerðar höfðu verið ráðstafanir til að það yrði fjarlægt.

Vatnsrásin við veginn var hreinsuð skömmu eftir slysið.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV