Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hnúfubakur lék listir sínar í Hestfirði

01.08.2019 - 16:58
Mynd: Einar Skúlason / Einar Skúlason
Gönguhátíð verður haldin í fimmta sinn um helgina í Súðavík og er von á um hundrað göngumönnum að sunnan, að sögn Einars Skúlasonar, skipuleggjanda. Setningarathöfnin verður í botni Hestfjarðar síðdegis á morgun. Einar náði meðfylgjandi myndskeiði af hnúfubak sem þar lék á als oddi í hádeginu í dag.

„Það var gaman að sjá hnúfubakinn. Hann gæti verið þarna líka á morgun, þeir staldra við ef það er nóg æti,“ segir Einar og bendir á að setningarathöfnin verði þarna skammt frá. „Þeir voru tveir fyrst og svo tóku þeir sporðaköst og það heyrðust hljóð frá þeim. Svo synti annar þeirra í áttina út úr firðinum. Það var eins og þeir væru að kveðjast.“

Göngur af ýmsum toga verða í boði um helgina og verður gangan á Vatnshlíðarfjall í Álftarfirði líklega erfiðust, segir Einar. Það sé bæði vegna hækkunar og undirlags. Allar göngurnar nema ein verða í Súðavíkurhreppi, því Kaldbakur sé í Ísafjarðarhreppi. 

Einar segir að mögulega þurfi að opna stærra tjaldsvæði. Hann hafi rætt það við sveitarstjórann en það verði skoðað betur á morgun. Veðurspáin sé góð; hlýtt veður í kortunum og hægviðri. „Við höfum stundum þurft að breyta göngum vegna slæms skyggnis eða hvassviðris en það þarf ekki núna. Ég býst ekki við því miðað við spána. Þetta lítur vel út.“ 

Aðspurður hvort fleiri hátíðir verði með svipuðu sniði um verslunarmannahelgina, segir Einar að fleiri bjóði upp á útivist. „En ég held að það sé enginn með jafn metnaðarfulla dagskrá að þessu leyti,“ segir hann. Í boði verður ganga fyrir fjölskyldur, kvöldganga og söguganga um Súðavík svo eitthvað sé nefnt. Í ár verði breytt til og hátíðin látin hefjast á göngu í Lambárgili í botni Hestfjarðar í stað þess að fara Valagil í Álftafjarðarbotni. Botninn verður síðan sleginn í hátíðina með dansleik á laugardagskvöldið. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV