Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hnúfubakar með vetursetu í Eyjafirði

04.01.2019 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Hvalagengd í Eyjafirði hefur stóraukist á síðustu árum og nú er hægt að stunda hvalaskoðun þar allan ársins hring. Líklegt er talið að breytingar í umhverfinu valdi því að hnúfubakar, sem áður héldu suður í höf á veturna, dvelji nú á nýjum fæðustöðvum á norðlægum slóðum.

Fyrir fáum árum hefði það þótt saga til næsta bæjar að hægt væri að bjóða upp á siglingar um Eyjafjörð, um miðjan vetur, til að skoða hnúfubak. En nú er þetta engu að síður staðreynd því hval hefur fjölgað mikið í Eyjafirði undanfarin ár.

Allt að 10 hvalir í hverri ferð

Fyrir 20 árum þótti viðburður að sjá hnúfubak í firðinum en það er algeng sjón í dag. Og hnúfubakur dvelur nú sífellt lengur fram á veturinn. Oftast hurfu þeir fyrir ármót en í fyrra voru þeir í firðinum út allan febrúar og það sama virðist vera að gerast núna. „Það er svolítið merkilegt, við erum búin að fara nokkrar ferðir núna sitthvoru megin við áramótin, og við erum að sjá upp undir alveg 10 hnúfubaka í hverri ferð. Og mikill það er hamagangur,“ segir Aðalsteinn Svan Hjelm, markaðsstjóri Whale watching Hauganes.

Umhverfisáhrif valdi breyttri hegðun hvalanna

Og þetta eru bæði ung og fullorðin dýr. Breytingar í umhverfinu eru taldar ástæður þess að hnúfubakur velur nú að dvelja á fæðustöðvum hér norður í höfum yfir veturinn. Kvendýrin fari því ekki, eða allavega seinna en áður, á æxlunarsvæði í Karíbahafi. Þetta stendur til að rannsaka betur en þarna gætu varanlegar breytingar verið að eiga sér stað. „Ég held að ætið spili stærstu rulluna í þessu. Svo held ég bara að hvalnum sé að fjölga gríðarlega mikið,“ segir Arnar Sigurðsson, skipstjóri hjá Eldingu.

Fagna því að fá meira að gera

Það hefur breytt miklu hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum í Eyjafirði að geta nú boðið þessa þjónustu á árstíma þar sem bátarnir hafa til þessa legið bundnir við bryggju. „Og við að sjálfsögðu fögnum því hérna á svæðinu að fá bara meiri vinnu hérna yfir vetrartímann, meira að gera,“ segir Aðalsteinn. „Og við fáum þá líka gesti til þess að njóta þess sem við höfum upp á að bjóða hérna. Hvalirnir eru sannarlega til staðar og eru að sýna sig.“ 

Hnúfubakar við Krossanes

Og Arnar segir að nóvember hafi jafnvel verði betri en margir sumarmánuðirnir. „Við höfum séð andanefjur og hnúfubaka bara hérna við skipshlið, áður en við leggjum af stað í túrinn og hefðum kannski ekki þurft að setja í gang. Og undanfarna daga hafa verið svona 5-7 mínútur í þrjá hnúfubaka sem hafa verið út við Krossanes.“    

Ferðamenn ánægðir í hvalaskoðun

Og ferðamennirnir njóta þess að geta skoðað hvalina. Feðgarnir Ben og Finley Alton frá Bretlandi, fóru í dag í hvalaskoðun frá Akureyri og voru ánægðir. „Já við sáum nokkra hvali. Þeir voru ekkert stökkvandi eða svoleiðis, frekar rólegir,“ sagði Ben. „Finley bjó sér meira að segja til hval úr pappír. Þetta var skemmtilegur dagur.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV